Theresa May forsætisráðherra Bretlands hringdi í David Cameron fyrrverandi forsætisráðherra og grátbað hann um að lýsa yfir stuðningi við samkomulag Íhaldsflokksins og norður-írska DUP flokkinn. Greint er frá því í breska dagblaðinu Times í dag að May hafi hringt í Cameron daginn áður en greint var frá samkomulaginu við DUP, mun það hafa verið í fyrsta sinn í marga mánuði sem hún hafi rætt við Cameron. May hefur staðið í ströngu við að sannfæra Íhaldsflokkinn um ágæti þess að þingmeirihluti flokksins verði varinn af tíu þingmönnum DUP, en í skiptum fær norður-írska heimastjórnin 1 milljarð punda í aukin framlög.
Skömmu eftir meint símtal May og Cameron sagði hann á Twitter:
Verkefni forsætisráðherra í þessum aðstæðum er að tryggja eins stöðuga ríkisstjórn og hægt er – Samkomulagið við DUP gerir það. Allir Íhaldsmenn eiga að styðja það.
Heimildarmaður úr innsta hring Cameron sagði við Times:
Áttar Theresa sig ekki á hvernig þetta lítur út? Hún talaði illa um hann í kosningabaráttunni, hefur varla sagt neitt við hann síðan hún varð forsætisráðherra og svo grátbiður hún hann um stuðning.
Kostar meira að hafa ekki trausta ríkisstjórn
Michael Gove, nýskipaður umhverfisráðherra Bretlands, sagði í viðtali hjá Andrew Marr á BBC í gær að samkomulagið við DUP sé það besta í stöðunni. Hafnaði hann því alfarið að milljarðurinn sem fari til Norður-Írlands sé sóun á fé, það kosti meira að hafa ekki trygga ríkisstjórn:
Það er aðeins ein leið að hafa trygga ríkisstjórn í landinu og það er með Theresu May sem forsætisráðherra.