Sigmundur Davíð Gunnlaugsson benti mér á þessa mynd af Uppsölum, en um daginn skrifaði ég pistil um þetta hús sem stóð á horni Túngötu og Aðalstrætis. Sigmundur skrifaði fyrir tveimur árum grein um Uppsali og fleiri gömul hús og setti í samhengi við stórkarlalegar nýbyggingar í Reykjavík. Það er mjög athyglisverð lesning.
Myndin er líklega tekin á bilinu frá 1910-1920 og við sjáum hvað húsið hefur verið geysilega fallegt með turni sínum, spíru og kúlu þar ofan á, tignarlegum gluggum, svölum, tvöföldum dyrum og skilti þar sem nafn hússins stendur – Uppsalir.
Uppsalir koma fyrir í bókmenntum, þar var veitingahús þar sem bæði Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness komu þegar þeir voru ungir menn. Húsið var reist 1902. Hér er mynd frá því það var rifið 1969 – til að rýma fyrir akbraut sem aldrei kom. Þarna var lengi bílaplan uns loks var byggt hús sem bar smá svipmót af Uppsölum – við hliðina á öðru húsi sem líkist Fjalakettinum sem líka var rifin. Svona birtist eftirsjáin í arkítektúrnum.