Afkoma Landsbankans var jákvæð um 12,7 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2017 samanborið við 11,3 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2016. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,6% á ársgrundvelli samanborið við 8,6% á sama tímabili 2016 og kostnaðarhlutfall lækkar og er nú 43%. Þetta kemur fram í fréttatilkynngu frá Landsbankanum.
Hreinar vaxtatekjur bankans voru 18,2 milljarðar króna og hækkuðu um 3,2% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 4,4 milljörðum króna og hækkuðu um 13,8% frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar lækkuðu um 1 milljarð króna á milli tímabila og vanskilahlutfall heldur áfram að lækka, var 1,1% á fyrri helmingi ársins samanborið við 1,7% á sama tímabili 2016.
Rekstrartekjur bankans á fyrri helmingi ársins hækkuðu um 2,5% frá sama tímabili ári áður, úr 28,6 milljörðum króna í 29,3 milljarða króna. Aðrar rekstrartekjur námu 5,4 milljörðum króna samanborið við 4,8 milljarða króna sama tímabil árið áður og skýrist hækkunin aðallega af jákvæðum gangvirðisbreytingum á óskráðum hlutabréfum. Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,5% á fyrri helmingi ársins 2017 en var 2,3% á sama tímabili árið áður.
Rekstrarkostnaður bankans nam 12 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2017 sem er lækkun um 1,7% miðað við sama tímabil árið 2016. Þar af var launakostnaður 7,1 milljarður sem er lækkun um 2,3% frá sama tímabili 2016. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 0,8% frá sama tímabili árið 2016 og var 4,9 milljarðar.
Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins 2017 var 43,0% sem er lækkun um 4,3 prósentustig frá sama tímabili árið áður. Skýrist lækkunin einkum af jákvæðri þróun á mörkuðum ásamt lægri rekstrarkostnaði bankans. Eigið fé Landsbankans var 238,9 milljarðar króna 30. júní síðastliðinn og eiginfjárhlutfallið var 27,6%. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
Afkoma Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2017 var góð og er til marks um stöðugan og traustan rekstur bankans. Rekstrartekjur héldu áfram að aukast, einkum vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu og aukinnar markaðshlutdeildar bankans. Um leið veldur hagræðing því að rekstrarkostnaður minnkar,
segir Lilja Björk. Það er sérstaklega gleðilegt fyrir bankann að ánægja með þjónustu bankans hafi aukist og fleiri bera traust til bankans. Einnig sjái bankinn áframhaldandi jákvæða þróun í vanskilum því vanskilahlutfall viðskiptavina, sem sé nú 1,1%:
Í júní greiddi Landsbankinn að fullu upp eftirstöðvar skuldabréfa sem árið 2009 voru gefin út til gamla Landsbanka Íslands hf, nú LBI ehf. Við nýttum okkur að Landsbankanum bjóðast sífellt betri kjör á erlendum fjármagnsmörkuðum og með því að greiða skuldabréfin upp sparast töluverður fjármagnskostnaður. Ávinningur af uppgreiðslu og endurfjármögnun skuldabréfanna mun koma fram að fullu í rekstrarreikningum bankans frá og með þriðja ársfjórðungi 2017 og bætt kjör á mörkuðum munu þar að auki bæta samkeppnishæfni bankans í útlánum í erlendri mynt.