Hernaðarleyndarmál sem og persónuupplýsingar um milljónir Svía hafa lekið á netið. Greint er frá þessu í sænskum fjölmiðlum og á vef Hacker News í dag en upplýsingarnar koma frá sænska ríkinu. Svo virðist sem Samgöngustofa Svía, Transportstyrelsen, hafi óvart lekið upplýsingunum þegar stofnunin var að færa gögnin í varðveislu tæknifyrirtækisins IBM.
Lekinn hefur það í för með sér nöfn, myndir og heimilisföng milljóna Svía eru komnar á netið, þar á meðal nöfn og starfsheiti herflugmanna, leyniþjónustumanna, menn sem grunaðir um glæpi af hálfu lögreglu sem og nöfn þeirra sem eru í vitnavernd sænsku lögreglunnar.
Árið 2015 fól Samgöngustofa Svía IBM að halda utan um rafrænar upplýsingar stofnunarinnar sem og að sjá um tölvukerfi. Í ógáti rötuðu allar upplýsingarnar sem ætlaðar eru til vörslu hjá IBM á ólæsta gagnagrunna. Til að bæta gráu ofan á svart var vefslóðin með upplýsingunum send í tölvupósti til allra sem fylgjast með fréttatilkynningum samgönguyfirvalda.