Félagið Íslenskar sjávarafurðir, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hefur fest kaup á rúmlega 5% hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Á félagið nú rúmlega 14,15% hlut í félaginu Þórsmörk, sem á Árvakur, en átti áður rúmlega 9% hlut. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag. Hlutur félagsins Ramses II, sem er í eigu Eyþórs Arnalds, hefur minnkað um tæplega 4 prósentustig og er nú um 23%.
Hlutafé Árvakurs var aukið af núverandi eigendum um 200 milljónir í sumar og var það Kaupfélag Skagfirðinga sem lagði til hvað mest fjármagn, að því kemur fram í Fréttablaðinu. Ramses II er sem fyrr stærsti eigandi Þórsmerkur, félagið Hlynur A sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur á 16,5% hlut og Ísfélag Vestmannaeyja 12,4% hlut. Árvakur tapaði rúmlega 50 milljónum króna í fyrra, sem er öllu minna en árið áður þegar félagið tapaði 164 milljónum.