Stóra sumarmálið á Íslandi er skítabomban mikla, skólpið sem flæddi út í Skerjafjörð og um öll Skjólin, alveg óhreinsað.
Það var talsvert afrek þegar gerð var gangskör að því að setja upp skólphreinsistöðvar hringinn kringum borgina. Við sem erum eldri en tvævetur munum eftir því þegar skólp rann út í sjó með tilheyrandi lykt og óþrifum. Þá voru meira að segja ruslahaugar við Sólarlagsbrautina svokallaða, þar sem nú er blómleg byggð.
Eitt sinn var baðstaður í Nauthólsvík. Þegar ég var strákur var búið að loka honum og sjóböð bönnuð. Ástæðan var mengun. Manni fannst þetta hálfleiðinlegt, hélt að forðum hefði verið betri tíð þegar var hvort tveggja baðströnd við rætur Öskjuhlíðar og Tívolí í Vatnsmýri.
Síðan var þetta allt hreinsað og sett á laggirnar ylströnd í Nauthólsvík.
Þessi ljósmynd rifjar upp gamla tíma í Nauthólsvík. Þetta er aðeins fyrir mitt minni. Þarna er veitingavagn sem auglýsir bæði Canada Dry og Spur. Hinn fyrri er gæðadrykkur sem stundum er enn hægt að fá, en Spurið er ófáanlegt. Margir segjast sakna þess – en ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvernig það var á bragðið. Flöskurnar voru samt flottar.
Á vefnum Gamlar ljósmyndir segir að myndin hafi verið tekin af Jóhanni Vilberg Árnasyni. Það var ljósmyndari sem lést með hörmulegum hætti í bílslysi á Reykjanesbraut 1970, aðeins 26 ára að aldri.