Þennan merkilega samanburð á þéttleika byggðar er að finna á vef Alta, en það er ráðgjafafyrirtæki sem fæst við skipulag og byggðaþróun. Alta bregður upp dæmum um þéttleika byggðarinnar á ýmsum stöðum í höfuðborginni, allt frá 7 íbúðum á hektara upp í 109 íbúðir á hektara. Hér er einbýli í Fossvogi.
Svo er það blokk við Maríubaug.
Og loks randbyggð við Brá-, Ásvalla- og Ljósvallagötu. (Tek fram að þarna er ég alinn upp í einhverju fallegasta og gamalgrónasta borgarumhverfi sem þekkist í Reykjavík, þegar ég var krakki þarna var þetta afar fjörugt og barnmargt hverfi. Vandi þess núna er helst að þarna eru of margir bílar að troðast í stæði, en þá var það ekki svo.)
Mörg fleiri dæmi er svo að finna á heimasíðu Alta.
En almennt má segja, burtséð frá rifrildisumræðu á Íslandi, að þéttleiki borga sé að aukast. Úthverfi eru ekki jafnvinsæl og þau voru áður, ungt fólk vill fremur búa inni í þéttari borgum þar sem er styttra í verslun, þjónustu og skemmtanir. Þetta er alþjóðleg þróun – en það sem gerist náttúrlega um leið er að húsnæðisverð í miðborgum og nærri þeim hækkar, jafnvel þannig að ungt fólk hefur ekki lengur efni á að flytja þangað.
En það fylgist líka að með breyttum búsetuformum – það er miklu algengara en áður að fólk búi aleitt eða leigi til dæmis með vinum. Sums staðar í borgum, til dæmis vestanhafs, eru sjálfar íbúðirnar litlar en farið er að innrétta sameiginleg eldhús, svæði og þakgarða sem íbúarnir geta notað.