fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Að éta kaskeiti Corbyns

Egill Helgason
Föstudaginn 9. júní 2017 07:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hræddur er ég um að ég og fleiri sem töldum að Jeremy Corbyn afhroði í bresku kosningunum munum þurfa að éta kaskeitið hans. Það er bara spurning um með hverju er hægt að renna því niður. Corbyn var reyndar búinn að kasta húfunni í kosningabaráttunni og virkaði eins og hann hefði farið í smá makeover.

Tveimur leiðtogum Íhaldsflokksins í röð hefur orðið hált á því að boða til kosninga sem þeir þurftu ekki að halda, David Cameron og Brexit, Theresa May og kosningarnar í gær. Þar nær hún ekki meirihluta á þingi, þvert á flestar kosningaspár. Sumir segja að May lafi áfram sem forsætisráðherra einhvern tíma vegna þess að það sé enginn annar til að taka við, aðrir að hún hljóti að fara. Einhverjir samflokksmanna hennar eru væntanlega farnir að brýna hnífana. May situr uppi með taparastimpilinn sem Corbyn hafði.

May rak það sem hlýtur að teljast skólabókardæmi um lélega kosningabaráttu. Hún neitaði að mæta andstæðingum sínum í sjónvarpskappræðum, sem mæltist afar illa fyrir. Það var gerð misheppnuð tilraun til að magna upp persónudýrkun í kringum hana – nokkuð sem þessi fremur ósjarmerandi stjórnmálakona stendur engan veginn undir. Hún lenti í vandræðum vegna velferðarmála og svokallaðs elliglapaskatts. Síðan höfðu tvö skelfileg hryðjuverk áhrif á kosningarnar, og þá lenti ferill May sem innanríkisráðherra undir smásjá. Það hjálpaði henni varla þegar varð almælt að hún hefði staðið fyrir niðurskurði til lögreglumála.

Það er svo merkilegt, að allar skoðanakannanir nema hin margumtalaða könnun YouGov gerðu ráð fyrir öruggum sigri Íhaldsflokksins. En sveiflurnar eru merkilegar. Íhaldsflokkurinn bætir við sig 6 prósentustigum en tapar 12 þingsætum – hugmynd May þegar hún boðaði til kosninganna var að flokkurinn myndi vinna marga tugi þingsæta. Verkamannaflokkurinn bætir við sig 10 prósentustigum og 31 þingsæti. Fylgi Ukip sem hrynur algjörlega virðist fara meira á Verkamannaflokkinn en Íhaldið. Meiri kosningaþátttaka en oft áður gæti hafa gagnast Verkamannaflokknum. Í Lundúnum er Verkamannaflokkurinn gríðarlega sterkur – en höfuðborgin vildi heldur ekki Brexit.

Gömlu stóru flokkarnir, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, hafa ekki samanlagt verið með meira fylgi um langa hríð, 83 prósent. 2010 var atkvæðahlutfall flokkanna tveggja ekki nema 65 prósent. Verkamannaflokkurinn vann stóran hreinan meirihluta með 40,7 atkvæðum undir forystu Tonys Blair árið 2005. Þarna munar mestu um fylgishrun Frjálslyndra demókrata (LibDems) og Ukip. Árangur Corbyns nú hefði dugað til sigurs þá.

Munurinn milli stóru flokkanna er ekki nema 2 prósentustig – ekki 20 eins og spáð var um tíma. Svo er  merkilegt að sjá hvað Skoska þjóðernisflokknum (SNP), með sinn öfluga leiðtoga, Nicola Sturgeon, vegnar illa í kosningunum. Flokkurinn tapar heilum 19 þingsætum og meira að segja Íhaldsflokkurinn vinnur sæti í Skotlandi. Þetta þýðir væntanlega að úrsögn Skotlands úr breska ríkjasambandinu er ólíklegri en áður.

Menn hafa talað um að ekkert sé að marka skoðanakannanir, og þá yfirleitt í þá átt að þær vanmeti fylgi hægri flokka – og hægri pópúlista. En í tvennum stórum evrópskum kosningum í röð hefur þróunin verið önnur, í Frakklandi fékk Emmanuel Macron talsvert meira fylgi en skoðanakannanir gerðu ráð fyrir og í gær Verkamannaflokkur Jeremys Corbyns.

Kosningarnar setja fyrirætlanir May varðandi Brexit í uppnám. Hún vildi fá umboð til að leiða Brexit, en fékk ekki. Nú munu Íhaldsmenn leggjast í gagnkvæmar ásakanir um misheppnað upphlaup með því að boða til óþarfra kosninga. Orðið Schadenfreude eða Þórðargleði heyrist nefnt um ófarir May. Þeim Íhaldsmönnum sem vilja fara varlega í Brexit vex ásmegin. Íhaldið mun hugsanlega þurfa að reiða sig á Lýðræðislega sambandsflokkinn á Norður-Írlandi (DUP) en sá meirihluti verður samt naumur. DUP er flokkur mótmælenda, leiðtogi hans var eitt sinn hinn herskái klerkur Ian Paisley.

Frjálslyndir demókratar segjast ekki vilja fara í samsteypustjórn – þeir eru illa brenndir á því eftir vistina í stjórninni með David Cameron 2010 til 2015. Það er hins vegar lengra í að Jeremy Corbyn geti myndað meirihluta, það myndi ekki nægja þótt SNP og LibDems gengju til liðs við hann. Hann verður tæplega forsætisráðherra en hefur tryggt stöðu sína sem formaður Verkamannaflokksins í að minnsta kosti nokkur ár.

Theresa May ætlaði að styrkja stöðu sína og verða einráður forsætisráðherra. En útkoman er óvissa. Hugsanlega getur það verðið jákvætt, það verður þá máski að reyna að ná fram Brexit í einhvers konar sátt fremur en önnur fylkingin troði útgöngunni ofan í kokið á hinni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka