Sjómannadagurinn – sem núorðið er stundum nefndur Hátíð hafsins – er núna um helgina. Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 6. júní 1938 í Reykjavík og á Ísafirði.
Þessi ljósmynd er líklega frá sjómannadeginum á fyrstu árum hátíðarhaldanna. Ég giska á að hún sé tekin af efri hæðum húss Eimskipafélagsins. Myndin sýnir mannfjölda við Austurhöfnina í Reykjavík, við sjáum að fjöldi báta er í höfninni, stórir og smáir, og þeir eru skreyttir fánum.
Mest áberandi á myndinni er gamli kolakraninn sem stóð nokkurn veginn þar sem Harpa er nú. Undir honum er risastór kolabingur. Kolakraninn var reistur 1927 en rifinn 1968. Ég man eftir þeim atburði en kranann sjálfan hef ég ekki í minni mínu.
Bak við kranann sést stórhýsi Sænska frystihússins sem er þar sem Seðlabankinn er nú og þar fyrir aftan hús Sambands íslenskra samvinnufélaga. Timburhúsið lengst til hægri þekki ég ekki, en það er athyglisvert að sjá að mikið hefur verið fyllt upp í höfnina framan við það. Hafnarkanturinn er nú miklu framar.