Mikið hefur verið fjallað um skipan dómara í Landsrétt – og er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að pólitísk sjónarmið hafi meðal annars ráðið ferð. Ástráður Haraldsson og Eiríkur Jónsson sem var rutt af lista tillögunefndar eiga báðir fortíð á vinstri væng stjórnmálanna. En minna hefur verið rætt um nokkuð stóran formgalla sem virðist vera á meðferð málsins sem felst í því að Alþingi ber að fjalla um hvern og einn dómara, en ekki um fjölmennan lista. Og þannig á að leggja málið fyrir þingið.
Þetta sýnist manni vera býsna skýrt í lögum um dómstóla sem þarna á að fara eftir.
Ákvæði til bráðabirgða.
IV. Skipun dómara við Landsrétt skal lokið eigi síðar en 1. [júní] 1) 2017 og skulu dómarar skipaðir í embættið frá og með 1. janúar 2018. Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.
Þarna sér maður ekki betur en sé býsna stór veikleiki á skipun dómaranna við Landsrétt – ofan á allt hitt. Dómaranna ber að skipa hvern fyrir sig, ekki í hóp eða kollektíft. Spurning hvort þetta sé ekki eitthvað sem muni koma til kasta dómstóla ef kemur til kasta þeirra að fjalla um þennan embættisgjörning?