Theresa May forsætisráðherra Bretlands er harðlega gagnrýnd fyrir samkomulag sitt við norður-írska DUP flokkinn, í skiptum fyrir að verja minnihlutastjórn Íhaldsflokksins fær heimstjórn Norður-Írlands einn milljarð punda í aukaframlag á næstu tveimur árum. Íhaldsflokknum vantar einungis níu þingmenn til að ná meirihluta á breska þinginu, með samkomulaginu fær Íhaldsflokkurinn stuðning þeirra tíu þingmanna sem DUP fékk kjörna. Miðað við milljarð punda þá gerir það 100 milljón pund á hvern þingmann DUP. Alls eru það 132 milljarðar íslenskra króna sem renna eiga til uppbyggingu á innviðum á Norður-Írlandi, eða rúmlega 71 þúsund krónur á hvern íbúa.
May sagði í gær að samkomulagið við DUP verði Bretlandi öllu til góða og tryggi stöðuga ríkisstjórn á meðan samið sé við Evrópusambandið um úrsögn Bretlands sem gengur að fullu í gildi eftir tvö ár. May þurfti nauðsynlega á samstarfi við DUP að halda, þegar hún boðaði til kosninga apríl síðastliðnum benti fátt til annars en að hún myndi styrkja stöðu sína en þess í stað missti hún meirihlutann á þingi þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi fengið fleiri atkvæði í heildina en í kosningunum 2015 og ef henni hefði mistekist að mynda stjórn þá hefði hún að öllum líkindum misst stuðning innan flokksins og þurft að segja af sér. Ekki eru þó allir bjartsýnir á samkomulagið, Nick Macpherson sem var ráðuneytisstjóri í breska fjármálaráðuneytinu sagði á Twitter:
1 milljarður punda til Norður-Írlands er bara fyrsta greiðsla. DUP kemur aftur og biður um meira… og meira og meira
John McDonnell þingmaður Verkamannaflokksins og skugga-fjármálaráðherra gagnrýnir May harðlega í samtali við breska vefritið Independent:
Þetta er sami Íhaldsflokkurinn sem sagði í kosningabaráttunni að það væru ekki til peningar í heilbrigðiskerfið og menntakerfið, nú hefur hann skyndilega fundið milljarð punda til að kaupa sér meirihluta á þingi. Segjum bara hlutina eins og þeir eru, þetta eru hreinar og klárar pólitískar mútur til að halda May í embætti.
Tim Farron, fráfarandi leiðtogi Frjálslyndra demókrata, segir:
„Vondi flokkurinn er kominn til baka með stuðningi frá DUP. Á meðan skólakerfið hrynur og heilbrigðiskerfið í gjörgæslu þá er Theresa May að kasta peningum í tíu þingmenn til að halda sér og sínu ráðuneyti í Downingsstræti.“
Gerry Adams, leiðtogi Sinn Féin, segir að samkomulagið við DUP geti ógnað friðnum á Norður-Írlandi. Ástandið þar hefur verið viðkvæmt í áraraðir en hefur verið friðsælt síðustu tvo áratugi, segir Adams það jákvætt að fjármagn renni til Norður-Írlands en fjármagnið eigi ekki að fara í breska herinn þar því það gæti raskað friðnum:
Við í Sinn Féin munum gera allt sem í valdi okkar stendur til að koma í veg fyrir að breska setuliðið fái sérstaka umbun, hvort sem það er í minnisvörðum eða forgangi í almannaþjónustu.