Þessi ljósmynd segir býsna skemmtilega sögu. Hún er tekin í Álfheimunum, greinilega að sumarlagi, því það er enginn snjór í Esjunni. Þetta virkar eins og snemma kvölds á góðviðrisdegi, við sjáum að sólin er farin að skína úr vestri. Það eru rósir í garðinum fremst á myndinni.
Húsin eru mjög nútímaleg, í anda módernismans, þetta er ljómandi fínt hverfi og vinsælt til búsetu. En bílarnir eru miklu fornfálegri en húsin. Það stingur í stúf. Þeir eru út út kú í þessu nútímalega og fúnksjónalíska umhverfi – líta út eins og eitthvað frá því í kringum stríð. En þetta minnir okkur á að módernismi í byggingarlist er kominn talsvert til ára sinna.
Myndin birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir, það var Þorsteinn Bjarnason sem setti hana þar inn.