Fáir mæla regluverki bót – og það er talað um „eftirlitsiðnaðinn“ og nauðsyn þess að skera upp herör gegn honum. En svo erum við einatt minnt á að hversu reglur geta verið mikilvægar og skortur á eftirliti slæmur – og oft lífshættulegur.
Við upplifðum þetta sterkt í efnahagshruninu, og þá ekki bara á Íslandi, þar sem eftirlitsstofnanir brugðust illa. Að mörgum hafði verið þrengt. Hinn hræðilegi Grenfell bruni í Lundúnum er dæmi um regluverk og eftirlit sem bregst fátæku fólki. Og svo eru minni dæmi, úr daglega lífinu, í gær birtu fjölmiðlar frétt um mismunandi gagnsemi sólvarna – og jafnvel skaðsemi sumra þeirra. Og gæti hugsast að mygla væri minna vandamál á Íslandi ef eftirlit með nýbyggingum hefði verið harðara?
Steven Poole skrifar grein í Guardian þar sem hann fjallar meðal annars um þá áráttu að vera á móti reglum og eftirliti, stundum nánast af einhverri sjálfvirkni. Slíkum málflutningi hefur til dæmis verið mikið beitt gegn Evrópusambandinu í Bretlandi – það náði hámarki þegar Boris Johnson laug upp sögu um reglur um bogna banana.
Poole rekur sögu eftirlitsstofnana meðal annars til hinnar frægu bókar Uptons Sinclair, The Jungle, en þar afhjúpaði höfundurinn hryllinginn sem tíðkaðist í hinum miklu sláturhúsum Chicagoborgar. Poole nefnir líka The Food and Drugs Administration sem Roosevelt Bandaríkjaforseti stofnaði.
Eftirliti er oft lýst sem dragbít á viðskipti. Þannig lætur til dæmis Donald Trump í Bandaríkjunum. En fyrir almenna borgara (ég nota ekki orðið neytendur) er eftirlitið oftar af hinu góða – með matvælum, lyfjum, byggingum, raftækjum, bílum, flugi, bönkum o.s.frv.