Það er nokkuð til marks um fásinnið sem var hér á Íslandi að það þóttu gríðarleg tíðindi þegar spurðist út að Filippus hertogi af Edinborg, eiginmaður Bretadrottningar, ætlaði að koma í heimsókn hingað 1964. Frá þessu var sagt í blöðum og birtust stórar greinar um hann mörgum mánuðum fyrir heimsóknina til að hita upp.
Ég man eftir að hafa verið þarna niðri í bæ sem barn, hef ekki verið nema fjögurra ára, minnir að barnfóstra sem passaði mig og systur mína hafi farið með okkur. Prinsinn kom fram á svalir Alþingishússins og veifaði til mannfjöldans. Blöðin voru undirlögð, hér forsíða Morgunblaðsins 1. júní 1964.
Filippus drottningarmaður, eins og hann var oft kallaður, hefur lengstum virkað eins og besti karl, en reyndar nokkuð seinheppinn. Það eru til heilu síðurnar á netinu um vandræðalega hluti sem hann hefur sagt og gert. Sumt af því virkar reyndar dálítið hrokafullt og yfirstéttarlegt, en það er líka stundum bráðfyndið.
Filippus var hávaxinn og nokkuð glæsilegur, kominn af aðalsættum sem voru meðal annars frá Grikklandi og Danmörku (annars eru þetta mikið til Þjóðverjar í bresku konugsættinni), nafn ættar hans er Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg.
Það var sagt að á sínum tíma hefði hann verið fenginn til að kynbæta konungsslektið. Mönnum leist ekkert á blikuna eftir bræðurna Eðvarð VIII og Georg VI sem báðir þóttu fjarska vitlausir og var jafnvel talað um úrkynjun í því sambandi. En Filippus Mountbatten var sérstaklega valinn til að giftast hinni ungu prinsessu, Elísabetu. Það hjónaband hefur enst síðan 1952.
Filippus kom nokkuð oft hingað eftir fyrstu heimsóknina. Hér komst á kreik sú saga að hann væri mjög hrifinn af pönnukökum og því voru honum gefnar pönnukökur í hvert skipti sem hann kom til Íslands. Þetta er af forsíðu DV frá 1994.
Mér var eitt sinn sögð saga af því þegar þau hjónin komu hingað einu sinni. Það var víst nokkuð erfitt að halda uppi samræðum við Elísabetu, hún gaf ekki mikið færi á slíku. Hann var hins vegar hinn líflegasti í boði sem var haldið fyrir Breta sem búa á Íslandi. Þar hitti hann kannski fólk af því tagi sem hann rekst ekki oft á, meðal annars mann sem vann á dekkjaverkstæði. Filippus mun hafa verið mjög áhugasamur um það og átti langt samtal við hann um dekk.
Filippus er ennþá á lífi, eins og flestir vita, 95 ára gamall. En það var tilkynnt í Buckinghamhöll að nú ætlaði hann að hætta að mæta við opinber tækifæri.