Útganga Breta úr ESB mun veikja stöðu Lundúna sem einnar mikilvægustu fjármálamiðstöðvar heimsins. Auk þess að vera ein mikilvægasta fjármálamiðstöð heimsins skipta umsvif fjármálafyrirtækja í borginni miklu máli fyrir breskt efnahagslíf. Um ein milljón manna starfar í fjármálageiranum í borginni og tekjurnar nema um 11 prósentum af vergri landsframleiðslu Bretlands. Þetta skilar gríðarlegum tekjum í ríkiskassann.
Margir alþjóðlegir stórbankar, sem starfa í Lundúnum, sögðu fyrir löngu síðan að þeir reikni með að flytja starfsemi sína og stöður til borga í ríkjum sem verða áfram í ESB. Borgir eins og París, Frankfurt og Lúxemborg munu örugglega laða til sín eitthvað af þeirri starfsemi sem nú er í Lundúnum. Fjármálafyrirtækin vilja flytja sig til ESB-ríkja til að tryggja aðgang sinn að innri markaði ESB en allt stefnir í að Bretlandi hafi ekki aðgang að honum frá 2019.
Stuart Gulliver, bankastjóri HBSC, sagði í janúar að bankinn undirbúi flutning 1.000 starfa til Parísar og svissneski bankinn UBS hefur tilkynnt að 30 prósent af stöðum bankans í Lundúnum verði fluttar til Frankfurt, það eru 1.500 stöður. Morgan Stanley flytur 1.000 störf frá Lundúnum til Frankfurt.
Hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja í Lundúnum, City UK, áætluðu á síðasta ári, áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit fór fram, að útganga úr ESB gæti þýtt að 70.000 til 100.000 störf myndu glatast í fjármálageiranum í borginni.
Danska ríkisútvarpið segir að óvissan um Brexit viðræðurnar valdi því að fjármálafyrirtæki sniðgangi Lundúni þegar starfsemi þeirra er aukin.