Þegar Norður-Kóreumenn sprengja kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni fara öflugar orkubylgjur í gegnum Jörðina sem geta hugsanlega komið af stað eldgosi við landamærin að Kína eða hvað? Sjötta kjarnorkusprenging Norður-Kóreu virðist vera skammt undan en síðast í morgun bárust fregnir af því að mikið sé nú um að vera í tilraunastöð þeirra þar sem þeir sprengja kjarnorkusprengjur og að svo virðist sem verið sé að undirbúa sprengingu. Ástandið er eldfimt á Kóreuskaga þessa dagana og ef Norður-Kórea sprengir kjarnorkusprengju er ómögulegt að segja hvernig fer í samskiptum þeirra við Bandaríkin, Suður-Kóreu og Kína.
Sérfræðingar telja að ef Norður-Kóreumenn sprengja nógu öfluga kjarnorkusprengju þá getið það komið af stað eldgosi í Paektu fjallinu sem er á landamærum Norður-Kóreu og Kína. Eldgos í fjallinu gæti haft miklar hörmungar í för með sér og orðið tugþúsundum manna að bana í báðum ríkjum. Þetta kemur fram í umfjöllun CNN um málið.
CNN hefur eftir Bruce Bennett, sérfræðingi í varnarmálum hjá Rand Corporation, að öflug sprenging geti valdið eldgosi í Paektu og það yrði stórt eldgos sem yrði mörgum að fjörtjóni. Hann sagði að Kínverjar hafi lengi haft áhyggjur af þessu í tengslum við kjarnorkuvopnatilraunir Norður-Kóreu. Um 1,6 milljónir manna búa í innan við 100 km radíus frá eldfjallinu en það er aðeins 115 km frá kjarnorkutilraunastöð Norður-Kóreu.
Paektu gegnir mikilvægu hlutverki í sögu Kóreu en þar er talið að Dangun, stofnandi fyrsta kóreska konungsríkisins, hafi fæðst. En lítið er vitað um eldfjallið út frá vísindalegu sjónarmiði en vísindamenn hafa ekki haft mikinn aðgang að því vegna einangrunar Norður-Kóreu frá umheiminum. Jarðskjálftavirkni var í því frá 2002 til 2005, líklega vegna aukinna kvikuhreyfinga.
Amy Donovan, kennari í jarðfræði og náttúruvá við King‘s College í Lundúnum, sagði CNN að líti hætta væri á að kjarnorkusprengja upp á 10 kílótonn gæti komið eldgosi af stað í fjallinu en ef sprengjan væri 50 til 100 kílótonn gæti það gerst.
Paektu gaus síðast 1903 en gos í því 946 er talið vera eitt af stærstu eldgosum sögunnar.