Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að Bandaríkin og Bretland séu ekki lengur áreiðanlegir bandamenn og að Evrópa verði að „berjast fyrir eigin hlutskipti“. Merkel segir að Evrópa verði að taka örlögin í eigin hendur þar sem bandalag vestrænna ríkja sé klofið vegna Brexit og þess að Donald Trump sé forseti Bandaríkjanna.
Merkel lét þessi orð falla á fundi, sem var haldinn í bjórtjaldi í München, í gær. Hún sagði meðal annars:
„Þeir tímar þar sem við gátum treyst algjörlega á aðra eru að renna sitt skeið á enda. Það hef ég upplifað undanfarna daga. Við Evrópubúar verðum að taka örlögin í eigin hendur.“
Hún sagði að Þýskaland og Evrópa muni reyna að eiga í góðum samskiptum við Bandaríkin og Bretland og að sérstaka áherslu þurfi að leggja á að rækta gott samband milli Þýskalands og Emmanuel Macron, nýkjörins forseta Frakklands.
Merkel var nýkomin af fundi G7-ríkjanna þegar hún fundaði í Bæjaralandi í gær. Fundi G7 lauk á laugardaginn án þess að Bandaríkin og hin ríkin næðu samkomulagi um að staðið verði við Parísarsáttmálann. Merkel sagði eftir fundinn að viðræður „sex á móti einum“ hefðu verið „erfiðar og ekki síst hefði niðurstaðan verið ófullnægjandi“.
Sky-fréttastofan segir að Trump hafi aðra sýn á málin og að hann hafi skrifað á Twitter í gær að hann væri nýkominn frá Evrópu. Árangur ferðarinnar hafi verið frábær fyrir Bandaríkin. Mikil vinna hafi skilað því.