Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins var gestur Björns Inga Hrafnssonar í Eyjunni á ÍNN nú í kvöld.
Í upphafi þáttarins var rætt um átök og ágreining Sigmundar Davíðs og Sigurðar Inga. Þar var meðal annars komið inn á flokksþingið í fyrrahaust þegar Sigurður felldi Sigmund úr sæti formanns og síðan nýliðinn miðstjórnarfund Framsóknarflokksins.
Sigmundur sagði að það væri augljóst eftir miðstjórnarfundinn að mikil og djúp óánægja væri meðal margra í Framsóknarflokknum. Málflutningur fjölmargra miðstjórnarmanna hefði sýnt það á fundinum:
Það er ómögulegt eftir þennan fund að halda því fram að það sé bara einhver lítill markaður hópur í flokknum sem að sé ósáttur og sætti sig ekki við „lýðræðislega niðurstöðu.“ Það var alveg ljóst á þessum fundi að það er mjög víðtæk óánægja með stöðuna en auðvitað líka með það sem gert var í fyrra og hvernig staðið var að því.
Þrátt fyrir þetta sagði Sigmundur að þetta hefði verið góður fundur þó hann hefði ekki leyst úr þeirri stöðu sem er innan Framsóknar.
Björn Ingi benti á að Sigmundi hefði orðið tíðrætt um svokallað flokkseigendafélag sem hann teldi hafa unnið gegn sér. Í þeim hópi væri fólk á borð við Guðna Ágústsson, Valgerði Sverrisdóttur og Jón Sigurðsson sem öll eru fyrrum formenn Framsóknar, og fólk í kringum þau. Björn Ingi sagði að þetta hljómaði merkilega frá manni sem hefði sjálfur verið formaður flokksins:
Margir hvá þegar þú heldur slíku fram, en þú telur þig hafa orðið fyrir barðinu á flokkseigendafélagi sem hafi hreinlega viljað koma þér frá?
Sigmundur Davíð svaraði:
Frekar vil ég tala um 2007-hópinn sem mér finnst meira lýsandi fyrir þennan hóp. Það er að segja þetta er sá hópur sem var ráðandi í flokknum í kringum kosningarnar 2007, og var mjög ósáttur svo auðvitað við innkomu mína í flokkinn 2009. Sum þeirra fóru ekkert leynt með það. Flest drógu sig í hlé út úr flokksstarfinu og pólitíkinni, en dúkka svo upp á flokkþinginu en ekki til þess að fylgjast með ræðunum, ekki til að taka þátt í málefnavinnunni, heldur á sunnudagsmornginum. Þá sé ég bara allt í einu að liðið er allt mætt, og útkall í gangi.
Sigmundur útskýrði þetta nánar og augljóst á máli hans að hann telur að komið hafi verið aftan að sér með undirmálum sem sitjandi formanni á síðasta flokksþingi.
Menn þurfa að skrá sig eða láta kjósa sig inn á þingið með ákveðnum fyrirvara. Viku áður en þingið byrjar þarf að vera búið að skila öllum listum yfir þá sem fá að taka þátt svoleiðis að menn geti ekki ákveðið daginn fyrir þing að mæta þar og kjósa. Sigurður Ingi tilkynnti um framboð sitt rétt eftir að búið var að loka fyrir allar slíkar skráningar. Þá var búið að raða inn hópum í ýmsum félögum flokksins og ómögulegt fyrir mig að hvetja einhverja til þess að mæta og kjósa. Það var haldið mjög skipulega utan um þetta og miðjan í því skipulagi og þeirri vinnu, var þessi 2007-hópur sem ég kalla svo sem að sá þarna tækifæri til þess að losna við mig.
Sigmundur Davíð sagði að hann hefði á sínum tíma verið boðinn fram og kosinn í sæti formanns flokksins sem fulltrúi flokksins eða grasrótarinnar í Framsóknarflokknum.
Það má segja að þar hafi hinn almenni flokksmaður á mjög stóru flokksþingi tekið völdin. Svo er spurning hins vegar hvernig það fer núna næst? Það getur verið furðu erfitt fyrir hinn almenna flokksmann að hafa eins mikil áhrif og æskilegt væri, því að þeir sem halda utan um skipulag málanna ráða svo miklu, hafa svo mikil áhrif. En hinn almenni Framsóknarmaður hefur tekið völdin áður og hver veit nema hann geri það aftur?
Sigmundur Davíð sagðist hyggjast nota næstu mánuði fram að boðuðu flokksþingi, sem skal haldið ekki seinna en í janúar á næsta ári, til að sinna sínu kjöræmdi [Norðaustur] og hugveitunni Framfarafélaginu sem hann ætlar að stofna á laugardag.
Eyjuþátturinn var frumsýndur á ÍNN nú klukkan 21:00 og verður endursýndur reglulega eftir það. Sjá nánar á heimasíðu ÍNN.
Fyrsti hluti viðtalsins:
Annar hluti viðtalsins: