Sprengjan sem íslamistinn Salman Abedi sprengdi í Manchester á mánudagskvöld var með sprengiefnablöndu sem kallast „Móðir Satans“ meðal sprengjusérfræðinga. Hún var sömu gerðar og sprengjur sem notaðar voru í Lundúnum 2005, í París í nóvember 2105 og í Brussel í mars 2016. Slíkar sprengjur eru iðulega notaðar af hryðjuverkamönnum.
Í breska blaðinu Independent kemur fram að sprengjan hafi verið það flókin í samsetningu, og svo erfitt að nálgast efnið í hana í Bretlandi, að sérfræðingar telja afar ólíklegt að Salman Abedi hafi verið einn að verki. Þrátt fyrir þetta séu sprengjur af þessari gerð þannig að kunnáttumenn geti búið þær til nánast hvar sem er. Breska lögreglan mun hafa fundið efni til sprengjugerðar við húsleitir í Manchester.
Átta menn hafa verið handteknir og færðir til yfirheyrslu í Bretlandi og í Líbýu hafa faðir og yngri bróðir Salman Abedi verið teknir höndum. Bróðirinn hefur upplýst að hann vissi um fyrirætlanir eldri bróður síns.
Bresk yfirvöld búast við því að fleiri hryðjuverk verði framin á næstunni þar sem framundan er löng fríhelgi, og er mikill viðbúnaður nú til að mæta þeim. Meðal annars hafa allar 27 helstu áfallahjálpamiðstöðvar í landinu verið settar í viðbragðsstöðu, að því er segir á vefsíðu Sky News.
Á sama tíma koma fram frásagnir frá fólki sem lenti í árásinni í Manchester. Lisa Bridgett (45) stóð í inngangssal Manchester Arena-tónleikavangsins og talaði í farsímann sinn þegar jíhad-vígamaðurinn Salman Abedi þrýsti á rofann sem tendraði „Móður Satans.“ Ótal stálskrúfur, rær og annað sem sett var í „naglasprengjuna“ til að valda hámarks líkamstjóni fórnarlambanna þeyttist í allar áttir.
Stálró hæfði löngutöng Lisu á vinstri hendi þar sem hún hélt á símanum. Fingurinn tættist af hendinni, róin lenti í símanum og fór svo gegnum vanga Lisu og stöðvaðst síðan við nef hennar. Lisa brákaðist einnig á ökkla eftir hlut úr sprengjunni og fékk sár eftir annað sprengjubrot á mjöðm.
Steve Bridgett eiginmaður hennar lagði út myndir og lýsingu á þessu á Facebook-síðu sinni í dag. Hann segir að síminn hafi sjálfsagt bjargað Lisu þar sem hann dró úr kraftinum þegar róin lenti á honum áður en hún fór í höfuð Lisu. Sjálf muni Lisa jafna sig til fullnustu líkamlega en vísast fá ör í andlit og búin að missa fingur. Hér fyrir neðan er Facbook-færslan með myndum af blóðugum og ónýtum símanum sem reyndist lífgjafi, blóðugum skó Lisu og ró úr sprengjunni.
Well here goes…..Lisa is in a positive mood and feels very lucky to be alive, witnessing first hand what could of been…
Posted by Steve Bridgett on 24. maí 2017