Kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore hefur undanfarið unnið að nýrri heimildarmynd í leyni um Donald Trump forseta Bandaríkjanna, segir Moore að myndin muni jarða forsetann. Myndin mun heita Fahrenheit 11/9, sem er vísun í heimildarmynd hans um George W. Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseta og dagsetninguna 9.nóvember þegar tilkynnt var að Trump yrði forseti Bandaríkjanna.
Myndin verður frumsýnd á Cannes-kvikmyndahátíðinni í ár og verður dreift í samstarfi við Harvey Weinstein sem dreifði Fahrenheit 9/11:
Það er ekkert betra en að hafa það vald að koma Michael Moore á framfæri við fjöldann. Þessi mynd verður með bestu og nýstárlegustu dreifingu í kvikmyndasögunni. Nú sem aldrei fyrr, er þörf á sannleiksþorsta Michaels. Við erum himinlifandi að taka þátt í byltingunni,
sagði Weinstein í fréttatilkynningu, en Fahrenheit 9/11 varð á sínum tíma tekjuhæsta heimildarmynd sögunnar. Moore segir daga Trump vera talda:
Það hefur ekki skipt máli hverju er hent í hann, það bítur ekkert. Alveg sama hvað kemur fram í dagsljósið, hann stendur keikur. Staðreyndir, raunveruleiki, rök, ekkert virðist ekki virka. Meira að segja þegar hann skýtur sig í fótinn þá vaknar hann bara næsta dag og fer á Twitter. Því lýkur með þessari mynd.