fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Líður að lokum valdatíðar Donald Trump? Reyndi hann að hafa áhrif á rannsókn FBI?

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 17. maí 2017 07:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Trump og Comey á meðan allt lék í lyndi. Mynd: Getty.

The New York Times skýrði frá því í gærkvöldi að samkvæmt minnisblaði frá James Comey, þáverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, hafi Donald Trump, forseti, beðið Comey um að hætta rannsókn á tengslum Michael Flynn, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa Trump, við Rússa. Þessa beiðni á Trump að hafa sett fram í samtali við Comey í febrúar. Þetta hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og víðar og telja sumir að vandræðagangur Trump sé orðinn svo mikill að nú hljóti að líða að endalokum valdatíma hans.

Talsmenn Hvíta hússins þvertaka fyrir að Trump hafi beðið Comey um að hætta rannsókninni. Samkvæmt minnisblaði Comey frá fundinum sagði Trump: „Ég vona að þú getir sleppt þessu.“ Þetta vekur upp spurningar um hvort Trump hafi reynt að blanda sér í rannsókn á vegum alríkislögreglunnar. Í sumum fjölmiðlum hefur þessu verið líkt við Watergatemálið sem varð Richard Nixon að falli á sínum tíma.

Flynn neyddist til að segja af sér eftir að í ljós kom að hann hafði leynt tengslum sínum við Rússa fyrir embættismönnum Hvíta hússins og Trump sjálfum.

The New York Times segir að samkvæmt minnisblaði Comey frá fundi sem hann átti með forsetanum 14. febrúar, degi eftir að Flynn sagði af sér embætti, hafi forsetinn sagt að Flynn væri góður maður og hefði ekki gert neitt rangt. Comey svaraði Trump engu um að hann myndi takmarka rannsókn FBI á máli Flynn og svaraði aðeins að hann væri sammála um að Flynn væri góður maður.

Sky-fréttastofan segir að frétt The New York Times í gærkvöldi hafi komið þingmönnum mjög á óvart og að mörgum hafi verið brugðið. Jason Chaffetz, repúblikani og formaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar, sendi FBI bréf og krafðist þess að stofnunin leggði fram öll minnisblöð, fundargerðir og upptökur í tengslum við samskipti Comey og Trump. Hann veitti FBI frest til 24. maí til að verða við þessari kröfu.

Enn eitt vandræðamálið fyrir Trump

Fréttin um beiðni Trump bættist í safn vandræðalegra mála undanfarna daga. Á mánudaginn skýrði The Washington Post frá því að Trump hefði skýrt utanríkisráðherra Rússlands frá háleynilegum upplýsingum. Áður hafði hvert vandræðamálið á fætur öðrum komið upp í valdatíð Trump.

Ef rétt reynist að Trump hafi beðið Comey að hætta rannsókn á Flynn er það alvarlegt mál því þá hefur hann reynt að hafa áhrif á yfirstandandi rannsókn. Demókratar munu örugglega segja að forsetinn sé að reyna að hindra réttarvörslukerfið í starfi sínu en spurningin er hvað repúblikanar gera.

CNN segir í umfjöllun um málið að á fyrstu 116 dögum Trump á forsetastóli hafi hann getað lifað allt það sem upp hefur komið, og það hefur verið margt, af pólitískt. Ef það komi hins vegar í ljós að minnisblað Comey sé rétt og nákvæmt þá geti allt eins farið svo að Trump geti ekki bjargað sér pólitískt.

Hvað gera þingmenn repúblikana?

Nú verða þingmenn repúblikana að gera upp við sig hvort þeir styðja Trump. Hvort þeir taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni flokksins og krefjist svara við af hverju leiðtogi þeirra reyndi að hindra framgang réttvísinnar og misnotaði vald sitt.

En stóra spurningin er auðvitað hvort þeir munu gera það. Trump mun ekki þurfa að standa skil á gjörðum sínum nema þingmenn repúblikana komi þar að máli því þeir eru með meirihluta í báðum deildum þingsins. Þeir eru með formennsku í þingnefndum sem eru að rannsaka mál Trump og tengls hans við Rússa. Þessar þingnefndir geta krafist aðgangs að öllum þeim gögnum sem talin eru mikilvæg fyrir rannsóknina.

Meirihluti repúblikana í báðum þingdeildum gerir það að verkum að þeir þurfa að koma að málum ef stefna á Trump og krefjast þess að hann verði sviptur embætti.

Stjórnmálin eru oft á tíðum illskiljanleg og erfitt að spá fyrir um framvinduna. Það er því erfitt að spá fyrir um hvort repúblikanar á þingi munu láta hollustu við þjóð sína rjúfa ærandi þögn þeirra undanfarið og krefjast svara um embættisfærslur Trump eða munu þeir halda áfram að þegja þunnu hljóði, að mestu, og reyna að standa storminn af sér?

Það gæti þó skipt máli í þessu að á næstu vikum verður kosið um tvö þingsæti sem eru laus. Það eru þingsæti fyrir Georgíu og Montana. Repúblikanar hafa haldið þingsætinu í Montana frá 1997 og í Georgíu hafa þeir haldið þingsætinu frá 1979.

En óvinsældir Trump hafa áhrif og samkvæmt skoðanakönnunum þá bendir flest til að demókratar vinni bæði þingsætin. Þetta hringir auðvitað viðvörunarbjöllum fyrir þingkosningarnar á næsta ári. Eða eins og Hannah Thomas-Peter, fréttamaður Sky í Bandaríkjunum, segir þá er ekkert sem veitir stjórnmálamönnum meiri hvatningu en þeirra eigið pólitíska líf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“