Chelsea Manning, sem handtekin var í bandarískri herstöð í Írak árið 2010 eftir að hafa lekið þúsundum leynilegra skjala til WikiLeaks, hefur verið sleppt úr haldi. Hún var vistuð í herfangelsinu í Ft. Leavenworth í Kansas ríki í Bandaríkjunum. Með þessu líkur einu stærsta lekamáli í sögu Bandaríkjanna.
Manning var dæmd á sínum tíma til 35 ára fangelsisvistar fyrir lekann sem var tvöfalt hærri dómur en áður hafði fallið í slíku máli. Í einu af sínu síðustu embættisverkum mildaði Barack Obama fyrrum Bandaríkjaforseti dóminn yfir henni.
Lögfræðingar Manning hafa lítið vilja tjá sig um hvað taki við hjá henni. Stuðningsmenn hennar hafa safnað fyrir hana um 138 þúsund dollurum til að hún geti framfleytt sér fyrst um sinn en búist er við því að hún flytji til Maryland ríkis þar sem hún á ættingja. Það er þó ekki víst að hún fari þangað strax enda vilja velgjörðarmenn hennar gefa henni andrými og næði til að ná aftur fótfestu eftir gríðarlega erfiða fangelsisvist.
Ekki er búist við því að hún mæti í viðtöl eða gefi frá sér neinar opinberar yfirlýsingar á næstu misserum en ljóst er að margir bíða spenntir eftir því að hún tjái sig um þrautagöngu sína.
Manning hlaut mun lengri dóm en starfsfólk hersins hefur hlotið fyrir morð, nauðgun eða stríðsglæpi. Að auki var hún í varðhaldi í 11 mánuði án þess að réttað væri yfir henni sem telst, samkvæmt sérstökum eftirlitsfulltrúa Sameinuðu þjóðanna um pyndingar, til grimmilegrar, ómannúðlegrar og niðurlægjandi meðferðar. Manning var sett í einangrun í refsingarskyni fyrir sjálfsvígstilraun og var neitað um viðeigandi meðferð í tengslum við kynvitund hennar á meðan á fangavistinni stóð.
Mannréttindasamtök hafa verið dugleg að láta í sér heyra hvað varðar meðferðina á Manning. Amnesty International hefur barist fyrir lausn Manning frá árinu 2013 þegar hún var dæmd til 35 ára fangavistar
Meðferðin á Chelsea Manning er sérstaklega ósvífin í ljósi þess að enginn hefur verið látinn sæta ábyrgð á þeim meintu glæpum sem hún opinberaði. Við fögnum frelsi hennar en höldum einnig áfram að kalla eftir óháðri rannsókn á þeim mögulegu mannréttindabrotum sem hún afhjúpaði og vernd til að tryggja að uppljóstrarar eins og Chelsea Manning þurfi aldrei aftur að sæta jafn skelfilegri meðferð,
segir Margaret Huang framkvæmdastjóri Amnesty International í Bandaríkjunum.
Mál Chelsea Manning var hluti af Bréfamaraþoni Amnesty International árið 2014. Gripið var til nærri 250 þúsund aðgerða vegna Manning þar sem kallað var eftir lausn hennar.
Íslandsdeild samtakanna tók upp mál Manning í Bréfamaraþoninu 2014, í SMS-aðgerðanetinu og Netákallinu en samtals söfnuðust 8.268 undirskriftir Íslendinga vegna máls hennar. Íslandsdeild Amnesty International þakkar öllum þeim sem létu mál hennar sig varða, heilshugar fyrir stuðninginn.
Í bréfi sem Chelsea Manning skrifaði til Amnesty International í kringum Bréfamaraþonið árið 2014 segir, „Ég styð aðgerðir ykkar til verndar fólki hvarvetna sem svipt er réttlæti, frelsi, sannleikanum og reisn sinni. Mér virðist sem gagnsæi stjórnvalda sé frumskilyrði þess að tryggja og vernda frelsi og reisn allra einstaklinga.“