Ein stærsta moska múslima í Svíþjóð brann í nótt. Sterkur grunur leikur á að eldur hafi verið borinn að húsinu.
Sænska öryggislögreglan Säpo kemur að rannsókn brunans. Byggningin sem brann er alls 3.500 fermetrar að flatarmáli. Hún er í Järfälla skammt norður af Stokkhólmi.
Elds varð vart í Imam Ali-moskunni laust eftir miðnætti að íslenskum tíma. Samkomu eða einhvers konar veilsuhöldum var nýlokið í byggingunni. Fólkið stóð fyrir utan húsið og var að tygja sig heim þegar það uppgötvaðist að eldur logaði í byggingunni.
Í frétt sænska ríkissjónvarpssins SVT kemur fram að mikið tjón hafi orðið á húsnæðinu. Allt að helmingur þess mun ónýtur sökum elds, reyks og vatns. Bókasafn sem telur um þrjú þúsund bindi mun hafa orðið fyrir reykskemmdum. Ekki urðu nein meiðsli á fólki.
Moskan tilheyrir söfnuði sjíamúslima í Svíþjóð. Í honum eru um 12 þúsund skráðir félagar. Eftir hryðjuverkin í París í nóvember 2015 var komið upp öryggisbúnaði með myndavélum við moskuna. Sænska blaðið Exrpessen greinir frá því að shíamúslimar í Svíþjóð hafi eftir það óttast að verða fyrir árásum súnnímúslimskra hryðjuverkamanna sem tilheyra hinu svokallaða Íslamska ríki en slíkir stóðu að árásunum í París. Mikil og mannskæð átök hafa geisað milli súnní- og sjíamúslima undanfarin ár í Miðausturlöndum, meðal annars í Írak.
Myndir munu hafa náðst af grunsamlegum manni við moskuna skömmu áður en eldsins varð vart. Aftonbladet skrifar að borist hafi hótanir gegn moskunni í síðustu viku.