Forráðamaður þýskrar ferðaskrifstofu sem selur ferðir hingað til lands segir ófremdarástand ríkja í ferðamálum hér á landi. Stjórnleysi sé í málefnum ferðamanna og hópar á vegum ferðaskrifstofunnar fari ekki lengur á Jökulsárlón, heldur fari frekar á minna sótta staði sem séu einnig að komast að þolmörkum.
Manfred Schreiber sér um Norður-Evrópudeild þýsku ferðaskrifstofunnar Studiosus og hefur því umsjón með ferðir til Íslands og í viðtali við vefsíðuna Túristi.is lýsir hann þungum áhyggjum af stöðu ferðamála hér á landi og vill leggja hönd á plóg við að laga ástandið.
Eins og farið hefur ekki fram hjá neinum hefur ferðamönnum fjölgað gríðarlega undanfarin ár, til að mynda á síðasta ári fjölgaði þeim um 40% frá árinu áður. Þetta segir Schreiber að sé einfaldlega ekki viðráðanlegt.
Þessi gríðarlega aukning síðustu ár er eins og flóðbylgja sem skall á landinu án þess að það væri undir hana búið. Hótelin, vegirnir, rúturnar, ferðamannastaðirnir, leiðsögumennirnir og ýmislegt fleira stendur einfaldlega ekki undir öllum þessum fjölda,
segir Schreiber.
Þessi fjölgun hefur slæm áhrif á ímynd Íslands sem hingað til hefur verið sem áfangastaðar þar sem sjá má ósnerta náttúru. Eitt stærsta dagblað Þýskalands kallaði Ísland „Mallorca norðursins“ vegna fjölda ferðamanna sem er ekki í anda þess sem ferðamenn búast við þegar þeir koma hingað.
Hjá Studiosus hafa menn tekið eftir því að vöxturinn í bókunum á ferðum til Íslands er að hægjast. Schreiber segir að fyrir því kunni að vera margar ástæður en hann segir verðlagið örugglega spila stóra rullu.
Þess vegna lít ég á umræðuna um komugjöld, gistináttaskatta og boðaða hækkun á virðisaukaskatti sem samstillt átak ríkisstjórnarinnar til að ganga að íslenskri ferðaþjónustu dauðri. Vandamálið er að sjóndeildarhringur sumra stjórnmálamanna virðist ekki ná lengra en til Vestmannaeyja. Þeir horfa ekki til annarra markaða og skilja ekki að svona aðgerðir draga úr eftirspurn.
Eins og áður var nefnt forðast hópar á vegum Studiosus fjölförnustu staðina eins og Jökulsárlón. Hlutirnir eru hins vegar að þróast þannig að jafnvel minna þekktir staðir eru að verða ferðamannafjöldanum að bráð. Schreiber segir að sífellt fleiri viðskiptavinir hafi gefið neikvæðar umsagnir um dvöl sína á Íslandi og það tengir hann ferðamannafjöldanum. Fararstjórar séu einnig óánægðari en áður. Þetta segir hann vera vísbendingar um að hlutirnir séu að þróast í vitlausa átt.
Til að bregðast við þessu vill Schreiber að stofnuð verði nefnd þar sem erlendir og íslenskir sérfræðingar eigi sæti til að móta skipulag ferðamála til framtíðar.
Í dag ríkir nefnilega stjórnleysi í greininni. Sem dæmi um það þá bjóðast núna lægri farþegagjöld á Keflavíkurflugvelli og hafnirnar veita skemmtiferðaskipunum líka betri kjör. Það vantar stefnu til framtíðar og stjórnmálafólkið verður að eiga frumkvæði að henni, hvernig sér það ferðaþjónustuna fyrir sér eftir 5 ár eða 10? Við verðum að fá svar við þeirri spurningu,
segir Schreiber að lokum við Túristi.is.