fbpx
Miðvikudagur 26.mars 2025
Eyjan

Hvernig er hægt að leysa vandann sem Norður-Kórea er? Hernaður er varla valkostur – Eða hvað?

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 7. apríl 2017 08:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kim Jong Un, einræðisherra Norður Kóreu. Mynd/EPA

Forseti Kína, Xi Jinping, er nú í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum og fundar með Donald Trump, Bandaríkjaforseta, um ýmis mál. Eitt af þeim málum sem Trump hyggst ræða við hann varðar Norður-Kóreu og sífelldar tilraunir ríkisins með eldflaugaskot og kjarnorkuvopn. Trump sagði nýleg að ef Kínverjar vilji ekki taka þátt í að leysa vandann sem Norður-Kórea er þá muni Bandaríkin gera það ein.

Trump vill að Kínverjar beiti Norður-Kóreu meiri þrýstingi til að láta af vopnaskaki sínu. Á sama tíma vill hann gera breytingar á viðskiptum á alþjóðavettvangi í þá veru að Bandaríkin standi betur en Kína gefi eftir. Það er því spurning af hverju Kínverjar eigi að leggja Bandaríkjamönnum lið við að reyna að hemja stjórnvöld í Norður-Kóreu í vopnaskaki sínu án þess að fá nokkuð fyrir sinn snúð.

Norska ríkisútvarpið fjallaði nýlega um málið. Í þeirri umfjöllun var bent á að Trump vilji herða refsiaðgerðirnar gegn Norður-Kóreu enn frekar, eða allt þar til þarlend stjórnvöld neyðast til að hætta eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunum sínum eða þar til einræðisstjórnin hrekst frá völdum.

Xi Jinping hefur aðra sýn á málið. Hann vill frekar að viðræður Kína, Bandaríkjanna, Rússlands, Suður-Kóreu og Japan um málefni Norður-Kóreu verði teknar upp á nýjan leik. Norður-Kórea tók þátt í þessum viðræðum en hætti þátttöku 2009. Kínversk stjórnvöld lögðu nýlega til málamiðlun sem gengur út á að Norður-Kórea hætti öllum kjarnorkutilraunum gegn því að Bandaríkin hætti árlegum heræfingum með Suður-Kóreu. Það eru litlar líkur á að það gerist.

Ekki langt í að Norður-Kórea eigi langdrægar eldflaugar

Bandarískar leyniþjónustur telja að Norður-Kórea muni búa yfir nothæfum langdrægum eldflaugum, sem geta borið kjarnorkuvopn, innan 18 til 24 mánaða. Þegar sú staða kemur upp getur einræðisstjórnin ógnað Bandaríkjunum með kjarnorkuárásum á Los Angeles eða Hawaii og auðvitað á herstöðvar Bandaríkjanna í Kyrrahafi.

Þetta vill Trump ekki að gerist. Kínverjar telja á hinn bóginn að þeim stafi ekki sérstaklega mikil hætta af einræðisstjórninni í Norður-Kóreu eða eldflaugum þeirra. Það sem Kínverjar óttast hins vegar er að einræðisstjórnin hrekjist frá völdum. Það gæti leitt til mikils flóttamannastraums yfir til Kína og í framhaldinu gætu Kóreuríkin sameinast. Það myndi þýða að Kína væri skyndilega komið með landamæri að ríki sem er náið bandalagsríki Bandaríkjanna. Auk þess eru um 30.000 bandarískir hermenn í Suður-Kóreu og þeir myndu líklega vera áfram til staðar í sameinuðu ríki.

Er hernaður raunhæfur valkostur?

Bill Clinton íhugaði af alvöru að grípa til hernaðaraðgerða gegn Norður-Kóreu 1994 en féll frá því. Ástæðan er að fórnarkostnaðurinn við slíka árás er alltof hár til að hægt sé að réttlæta hernað.

Í fjöllunum nærri hlutlausa svæðinu á milli Kóreuríkjanna hafa Norður-Kóreumenn komið fyrir gríðarlegum fjölda af stórskotaliðsvopnum. Þessi vopn geta lagt bæði Seoul, höfðuborg Suður-Kóreu, og Tókýó, höfuðborg Japans, í rúst á skömmum tíma eftir því sem segir í umfjöllun Norska ríkisútvarpsins. Seoul er í aðeins 40 km fjarlægð, í beinni loftlínu, frá landamærunum. Engin eldflaugavarnarkerfi geta varið borgina gegn skothríð frá stórskotaliðinu í fjöllunum. Reikna má með að mannfall meðal óbreyttra borgara hlaupi á milljónum ef til átaka kemur.

Eini möguleikinn er því að ráðast á Norður-Kóreu með mjög markvissum og skjótum hætti þannig að allir helstu leiðtogar landsins verði „gerðir óvirkir“ á sama tíma þannig að þeir nái ekki að fyrirskipa viðbrögð við árásinni. En slík aðgerð væri sannkallað hættuspil og óvíst hvernig færi.

Ekki má gleyma að einræðisstjórninni í Norður-Kóreu virðist vera slétt sama um almenning í landinu og virðist ekki hafa áhyggjur af þótt mikill fjöldi óbreyttrar borgara gæti látið lífið í átökum. Að minnsta kosti hafa milljónir landsmanna soltið í hel í gegnum árin án þess að dregið væri úr útgjöldum til hers landsins.

Hernaður gegn Norður-Kóreu er því ekki spennandi kostur og gæti einnig haft í för með sér bein átök á milli Kína og Bandaríkjanna ef allt færi á versta veg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa þurft að víkja – steinkast flokksmálgagna úr glerhúsinu er vandræðalegt

Orðið á götunni: Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa þurft að víkja – steinkast flokksmálgagna úr glerhúsinu er vandræðalegt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Heiða Björg borgarstjóri: Sjálfstæðismenn seldu hlutinn í Landsvirkjun – borgarbúar njóta ekki arðgreiðsla þaðan

Heiða Björg borgarstjóri: Sjálfstæðismenn seldu hlutinn í Landsvirkjun – borgarbúar njóta ekki arðgreiðsla þaðan
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Heiða Björg Hilmisdóttir: Þurfum hraðari uppbyggingu – lítið gerðist í tíð Einars sem borgarstjóra

Heiða Björg Hilmisdóttir: Þurfum hraðari uppbyggingu – lítið gerðist í tíð Einars sem borgarstjóra
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Ofstæki og heift ræður för – Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum

Orðið á götunni: Ofstæki og heift ræður för – Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar ósáttur við þaulsætni Rósu í stjórnum og nefndum – „Algjör hagsmunaárekstur og trúnaðarbrestur“

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar ósáttur við þaulsætni Rósu í stjórnum og nefndum – „Algjör hagsmunaárekstur og trúnaðarbrestur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Runólfur Ólafsson: Ríkisfjármögnun getur lækkað kostnað um 30-40 prósent – erum allt of mikið í „þetta reddast“

Runólfur Ólafsson: Ríkisfjármögnun getur lækkað kostnað um 30-40 prósent – erum allt of mikið í „þetta reddast“