Eftir því sem liðið hefur á daginn hafa málavextir skýrst varðandi það sem nú er talið hafa verið hryðjuverkaárás í neðanjarðarlestakerfinu í St. Pétursborg, næst fjölmennstu borg Rússlands. Stjórnvöld hafa staðfest að um hryðjuverk hafi verið að ræða.
Dmitri Medvedev forsætisráðherra Rússlands hefur einnig skrifað á Facebook-síðu sína að þetta hafi verið hryðjuverkaárás.
Nú er ljóst að ein sprengja sprakk en ekki tvær eins og talið var í fyrstu. Sprengingin varð í farþegavagni í lest sem var stödd nokkurn veginn mitt á milli neðanjarðarstöðvanna Tekhnologitsjeskij institut og Sennaja Plosjad.
See map of St. Petersburg metro blast and follow live updates here: https://t.co/cHuKqEyRt8 pic.twitter.com/sKA4sqiTG6
— Reuters Top News (@Reuters) April 3, 2017
Talið er að sprengjan hafi verið í ferðatösku sem var skilin eftir í vagninum og að hún hafi innihaldið nagla eða málmflísar sem dreifðust um allt við sprenginguna. Þessu var ætlað að tæta fórnarlömbin í sundur og valda hámarks líkamstjóni. Stjórnvöld hafa staðfest að tíu manns hafi látið lífið. Í rússneskum miðlum er hins vegar talað um að 14 séu látin, þar á meðal börn. Milli 40 og 50 manns slösuðust, þar af sex mjög alvarlega.
An explosion on the St Petersburg metro has killed at least 10 people, according to Russia's health minister https://t.co/di5RfzD4GV pic.twitter.com/V1ODwtmiTQ
— Sky News (@SkyNews) April 3, 2017
Skömmu eftir að sprengjan sprakk uppgötvaðist önnur á Plosjtsjad Vosstanija-neðanjarðarstöðinni í nágrenni hinna tveggja. Interfax-fréttastofan greinir frá því að reynt hafi verið að fela þessa sprengju í slökkvitæki. Það tókst að aftengja sprengjuna. Hún er talin hafa verið fimm til sex sinnum öflugri en hin sem sprakk og innihaldið sprengiefni sem jafnast á við eitt kíló af TNT-sprengiefninu.
Enginn hefur enn lýst tilræðinu á hendur sér en tveggja manna er leitað. Þeir eru grunaðir um að hafa skilið sprengjurnar eftir á vettvangi. Interfax skrifar að minnsta kosti annar þeirra hafi náðst á mynd í öryggismyndavélum. Mynd af ætluðum tilræðismanni hefur verið dreift á rússneskum samfélagsmiðlum en yfirvöld hafa ekki staðfest enn að um þennan mann sé að ræða.
Vladimir Pútín forseti Rússlands átti að hitta Alyaksandr Lukashenka forseta Hvítarússlands í St. Pétursborg í dag en spenna hefur aukist undanfarið í samskiptum ríkjanna. Þrátt fyrir hryðjuverkaárásina þá fór þessi fundur fram. Pútín tjáði sig um hana í upphafi fundarins:
Russian President Vladmir Putin reacts to the explosion in Saint Petersburg pic.twitter.com/eWjVCT9wTI
— Sky News (@SkyNews) April 3, 2017