Marine Le Pen hefur sagt af sér sem formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar, Front National. Franskir fjölmiðlar greindu frá þessu á áttunda tímanum í kvöld. Le Pen mætir Emmanuel Macron í seinni hluta frönsku forsetakosninganna eftir rúmar tvær vikur en hún hlaut næst flest atkvæði í fyrri hluta kosninganna í gær.
Le Pen sagði við fjölmiðla í kvöld að hún segi af sér formennsku í flokknum til að einbeita sér að kosningabaráttunni, sem verður að öllum líkindum mjög hörð og erfið. Með afsögninni sé hún að rísa ofar flokkadráttum. Ekki liggur fyrir hvort afsögnin sé tímabundin fram yfir kosningarnar 7.maí eða ekki.