„Þetta hefur verið mjög lærdómsríkur tími, mjög áhugavert að fylgjast með þróun mála. Þetta hafa verið róstursamir tímar, það hefur mikið breyst síðan ég kom þangað í janúar 2014. Búin að upplifa einar sveitarstjórnarkosningar, einar forsetakosningar, tvennar þingkosningar og nú þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo hafa verið hryðjuverkaárásir og tilraun til valdaráns. Ég hef séð andrúmsloftið breytast í Istanbúl á þessum tíma.“
Þetta sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir starfsmaður UN Women og fyrrverandi ráðherra í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun þar sem hún ræddi meðal annars um ástandið í Tyrklandi þar sem Erdogan forseti hefur verið að auka völd sín á kostnað þings og dómstóla, nú síðast með þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem eykur völd hans til muna og markar þáttaskil í stjórnmálum í Tyrklandi. Ingibjörg Sólrún hefur starfað sem umdæmisstjóri UN Women í Tyrklandi frá árinu 2014, segir hún margt hafa breyst frá þeim tíma.
Það var mjög létt andrúmsloft og opið þegar ég kom þangað 2014, en það hefur heldur verið að lokast. En samt sem áður, það er fínt að vera þarna og það er engin ástæða fyrir fólk að óttast Tyrkland eða að koma til Istanbúl.
Valdaránstilraunin mikið áfall
Ingibjörg Sólrún varð vör við mikla breytingu í kringum valdaránstilraunina síðasta sumar þar sem herinn og samtök sem kenndu sig við Mustafa Kemal Atatürk, landsföður Tyrklands nútímans, reyndu að steypa Erdogan af valdastóli. Tilraunin mistóks hins vegar þar sem hersveitir Erdogan, með liðsinni almennings, náðu tökum á landinu. Í kjölfarið áttu sér stað fjöldahandtökur og var lýst yfir þriggja mánaða neyðarástandi, sett voru neyðarlög sem færðu stjórnvöldum í Ankara víðtækar heimildir, meðal annars til að hefta tjáningarfrelsi í landinu. Ingibjörg Sólrún segir valdaránstilraunina hafa verið kaflaskil:
Hún hafði töluverð áhrif á Tyrki vegna þess að þeir héldu að þeir væru komnir yfir þennan kafla í sögu sinni. Það hafa verið valdarán í Tyrklandi nánast á hverjum áratug og fólk hélt að þetta væri liðin tíð, þannig að þetta var mikið áfall. Þó þetta færi betur en hefði getað gert þá setti þetta heilmikinn keng í þjóðarsálina. Það var heilmikil dramatík í kringum þetta, það var eins og pólitíkusar og fjölmiðlar á Vesturlöndum áttuðu sig ekki á því og fólk var svolítið biturt út í Vesturlönd fyrir að taka þetta ekki alvarlegar en þeir gerðu í upphafi. Það var heilmikið fjallað um þetta en viðbrögðin létu á sér standa, þetta var alvarleg valdaránstilraun.
Mjög tvískipt þjóð
Varðandi kosningabaráttuna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðustu helgi segir Ingibjörg hana að miklu leyti hafa snúist um hvort fólk væri með eða á móti Erdogan forseta:
„Satt best að segja bjóst ég við, miðað við umfang baráttunnar sem hans fólk stóð fyrir, að það myndi ná betri árangri en það gerði, það merkilegt hvað þetta var tæpt. Vegna þess að já-hópurinn var svo miklu miklu sýnilegri í allri kosningabaráttunni. Þannig að þetta er merki um lýðræðisvitund Tyrkja eða þetta skyldi vera svona tæpt,“
sagði Ingibjörg Sólrún. Fleiri kusu gegn stjórnarskrárbreytingunni en með í Istanbúl, segir Ingibjörg að þegar litið sé yfir fjölmiðlana og fjöldi spjalda á götum úti í borginni, þá hafi hlutfallið verið 70 á móti 30 Erdogan í vil. Ingibjörg Sólrún segir landið klofið:
Landið er klofið, það er ekkert nýtt, þetta er mjög tvískipt þjóð. Annars vegar eru svona veraldlega sinnaðir, Kemalistar getur maður sagt, sem tengja sig við arfleið Atatürks. Hins vegar eru svo þeir sem tengja sig meira við Íslam. Þetta eru tvær blokkir, önnur blokkin er stærri, þessi sem að tengir sig við Íslam og fylgir Erdogan að málum. En þetta er mjög klofin þjóð.