fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Þegar flugvélarnar voru fullar af dólgum

Egill Helgason
Föstudaginn 14. apríl 2017 09:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega hafa aldrei fleiri Íslendingar ferðast til útlanda en um þessa páska, landið væri hálftómt ef ekki væri fyrir túristana. Hér er líka komið upp gríðarlegt frelsi í farþegaflutningum sem ekki þekktist áður þegar var bara eitt flugfélag – og allt var gert til að knésetja flugfélög sem reyndu að fara í samkeppni. Þá skiptu Kolkrabbinn og Smokkfiskurinn með sér Íslandi.

Ég held svei mér þá að sumir sakni þessara tíma, eða kannski bara þeir sem voru ungir þá? Fyrir þá birti ég þessar myndir af gömlu flugstöðinni í Keflavík. Ólafur Hauksson setti þær inn á vefinn Gamlar ljósmyndir. Því miður sést ekki í barinn á myndunum, en þangað lögðu Íslendingar leið sína áður en þeir fóru í flug, fengu sér bjórinn sem var bannaður utan flugvallarsvæðisins. Helst keyptu menn Tuborg Gull, hann var langsterkastur, menn fundu vel á sér eftir einn bjór, voru orðnir þéttfullir eftir þrjá bjóra.

Þá var orðið flugdólgur ekki til – flugvélarnar voru fullar af dólgum. Farþegar gengu rövlandi milli sætaraða. Og það mátti nota tóbak að vild, menn voru lausir við þetta eilífa bögg um að ekki megi reykja.

Íslendingar sem fóru í sumarleyfi tóku með sér Bragakaffi, saxbauta í dós og jafnvel íslenskt vatn, enda vissu þeir að allur matur var óætur í útlöndum og líklega hættulegur. Mér hefur verið sögð saga úr einni af fyrstu sólarlandaferðunum til Spánar. Allir voru fullir í vélinni. Karlarnir voru klæddir í svört jakkaföt með lakkrísbindi. Dagana eftir komuna til Spánar var verið að hirða þá upp víða í strandbænum og af sólbekkjum þar sem þeir höfðu lagst til hvíldar. Konurnar brunnu allar á fyrsta degi í sólinni og lágu sárkvaldar inni á hótelherbergi mestalla ferðina. Náðu að fara út aftur síðustu dagana og maka á sig Coppertone sólarfeitinni, komu svo eldrauðar af sól aftur heim.

Þetta hefur allt breyst. Íslendingar eru nú vanir að ferðast og setja ekki fyrir sig hræðileg þrengslin í lágfargjaldaflugvélunum þar sem núorðið þarf ekki bara að borga fyrir allar töskur og allt utanáliggjandi, heldur bráðum líka fyrir að fá að draga andann. Þessi ferðamáti er reyndar orðinn svo leiðinlegur að manni er skapi næst að fara aldrei framar að heiman.

En aftur að flugstöðinni gömlu. Það er varla nein ástæða til að sjá hana í hillingum, hún var skelfing ljót og leiðinleg, enda var húsinu ruslað upp af Bandaríkjaher. Svo var ráðist í að byggja flugstöð Leifs Eiríkssonar, eins og hún heitir fullu nafni. Á sínum tíma kvörtuðu sósíalistar með Ólaf Ragnar Grímsson í fararbroddi yfir því að hún væri alltof stór. Þetta væri ægilegt bruðl. Fljótt kom hins vegar á daginn að hún var alltof lítil og nú er hún kolsprungin. Þarf endalaust að bæta við hana. Og ef áform flugfélaganna um aukinn farþegafjölda ganga eftir þarf sjálfsagt að byggja nýja flugstöð.

 

Þarna kom maður inn í flugstöðina eftir vegabréfaeftirlitið. Ekki sérlega vistlegt svæði.

 

Á þessum tíma ríkti ekki ótti við hryðjuverk. Vegabréfaskoðunin og vopnaleitarhliðið.

 

 

 

Fríhöfnin. Það var ekki verið að fela sígaretturnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út