Ekki einu sinni Kínverjar á sultarlaunum geta keppt við róbóta, en verksmiðjur þar í landi eru að sjálfvæðast hratt. Meðalrekstrarverð róbóta er um 2000 kr. á tímann og fer lækkandi. Vélmenni þurfa ekki klósett, mötuneyti, fataskápa eða veikinda- eða sumarfrí.
Þetta skrifar Jóhannes Björn í athugasemd við grein sem birtist hér á vefnum, en þar var sagt frá viðtali við Yngva Björnsson, prófessor í tölvunarfræði. Viðtalið var í Silfrinu á Rúv í gær.
Jóhannes skrifar um sjálfvirknivæðinguna sem gengur hratt yfir heiminn.
Það eru yfir þrjár milljónir flutningabílstjóra í Bandaríkjunum sem fá reisupassann á næstu árum þegar bílarnir keyra sig sjálfir og um 80% framleiðslustarfa sem hafa verið að gufa upp hafa verið sjálfvædd. Hamborgarakeðja Wendy´s var að kaupa þúsund róbóta sem selja mat líkt og hraðbanki spýtir út peningum. Amazon er nú þegar með 30.000 róbóta í vöruhúsum sínum og fjölgar þeim hratt.
Það eru heldur ekki bara einföld störf sem þarna eiga í hlut, verkamannastörfin, heldur líka störf sem fólk úr millistétt hefur sinnt – og lifað af góðu lífi. Jóhannes Björn skrifar:
En það eru ekki aðeins einföld störf sem eru að sjálfvæðast. Lögfræðiskrifstofur voru hér áður fyrr með her fólks sem vann við heimildasöfnun, en nú vinna tölvur þessi störf. Goldman var með 600 verðbréfamiðlara “á gólfinu” en í dag eru þeir tveir (tölvumönnum hefur þó fjölgað eitthvað). Þetta ferli er að endurtaka sig á nærri því öllum sviðum og það er mjög raunhæft að tala um 50% atvinnuleysi eftir 10 til 20 ár. Þróunin er 20 sinnum hraðari heldur en í gamla landbúnaðar/ framleiðslu/ skrifstofu ferlinu.
Eru borgaralaun svar við þessu? Er raunhæft að verði hægt að koma þeim á? Jóhannes Björn er ekki bjartsýnn á að svo verði.
Það er fallegur draumur en samt “pípudraumur” að halda að ríkisborgaralaun leysi vandann sem blasir við okkur. Fólk sem tölvur leysa af hólmi (segjum 50% vinnuaflsins) borgar ekki skatta. Hver á þá að borga ríkisborgaralaunin? Það er líka augljós staðreynd að stóraukin sjálfvæðing LÆKKAR verðmæti hverrar framleiddar einingar og fyrirtækin verða ver í stakk búin til þess að borga skatta. Annað hvort verður að endurhanna peningakerfið frá grunni eða þjóðnýta alla framleiðsluna.