Upphafleg ferðabannstilskipun Bandaríkjaforseta var undirrituð 27. janúar. Með henni var ríkisborgurum Írans, Íraks, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemen neitað um komu til Bandaríkjanna.
Tilskipunin fól einnig í sér að gert yrði þriggja mánaða hlé á móttöku flóttafólks. Koma sýrlenskra flóttamanna var stöðvuð án tímatakmarkana. Þessi tilskipun var úrskurðuð ólögleg af bandarískum dómstólum og forsetinn þannig gerður afturreka með hana.
Donald Trump og starfslið hans hafa síðan legið undir feldi með heitingum um að snúa aftur með nýja tilskipun um málefni innflytjenda og flóttafólks. Dagblaðið New York Times greinir nú frá því að þessi tilskipun sé tilbúin og að hún verði undirrituð síðar í dag. Samkvæmt henni mun forsetinn herða enn á hömlum þess að flóttafólk geti leitað til Bandaríkjanna því alveg verður lokað fyrir að fólk geti leitað hæli þar. Um leið verða ekki settar sérstakar hömlur á flóttafólk á Sýrlandi. Umsóknir þeirra fá sömu meðhöndlun og umsóknir annarra flóttafólks – það er að höfnun. Ekki er ljóst hve lengi þessi stöðvun á móttöku flóttafólks mun vara.
Önnur breyting er að ríkisborgarar frá Írak eru ekki lengur á lista yfir þjóðerni sem ekki fær að koma til Bandaríkjanna, jafnvel þó fólkið hafi gildar vegabréfaáritanir. Bandarísk stjórnvöld telja sig hafa fengið tryggðingar fyrir því frá íröskum stjórnvöldum um að öryggismál séu fullnægjandi í Írak, auk þess sem Bandaríkjamenn vilja sýna Írak velvilja þar sem stjórnvöld þar hafi reynst vel í baráttunni við hryðjuverkaöflin sem kalla sig „Íslamska ríkið.“ Hin löndin sem voru tilgreind í fyrstu tilskipuninni verða þar áfram.
Einnig er talið að nýja ferðatilskipunin nái ekki til fólks sem þegar hefur fengið dvalarleyfi í Bandaríkjunum eða eru með gildar vegabréfaáritanir þegar tilskipunin verður undirrituð.