Það eru kannski ekki margir sem átta sig á hvað hún sýnir þessi ljósmynd. Er þetta einhvers staðar úti á landi?
Nei, svo er ekki, þetta er Kringlumýrin þar sem nú er Kringlumýrarbraut og Kringlan – sem dregur nafn sitt af hinu upprunalega örnefni.
Myndin mun vera tekin um 1950. Á þessum tíma höfðu margir bæjarbúar matjurtagarða utan byggðarinnar þar sem þeir ræktuðu kartöflur og grænmeti. Stæstu garðlöndin voru einmitt í Kringlumýrinni, heilir 45 hektarar. Sumir voru framkvæmdasamir og reistu kofa eða skúra við garðblettina – það voru þá eins konar nýlendur. Í Danmörku kallast það kolonialhaver og var vinsælt meðal alþýðufólks og lægri millistéttar að eiga slíkt athvarf við borgarmörkin
En þar eins og hér hafa borgir vaxið út yfir gömlu garðlöndin.
Í Kringlumýrinni stóð lengi til að reisa nýjan miðbæ, eins og það var kallað. Borgarstjórnin taldi að gamli miðbærinn væri úr sér genginn og ekki upp á hann púkkandi. Mikið var bollalagt um nýja miðbæinn, margvísleg áform voru uppi, en á endanum var það Pálmi Jónsson í Hagkaupum sem tók sig til og reisti þarna verslunarhús með bílastæðum að bandarískri fyrirmynd. En hugmyndirnar um nýja miðbæinn eru flestum gleymdar.