Það virðist vera einkenni á þeim sem stunda viðskipti á Íslandi að þeir hafa afar slæmt minni. Þetta hefur komið fram hvað eftir annað. Þarna er bæði um að ræða almennt minnisleysi, minnisglöp og minnisglöppur.
Hér er síðasta dæmið um slæmt minni í viðskiptum. Þar eru bræður sem hafa stundað mjög flókin viðskipti árum saman en muna lítið. Þeir deila hinu lélega minni.
Er þetta kannski ein forsenda þess að ná árangri í viðskiptum – að hafa slæmt eða valkvætt minni? Á fólk með gott minni ekkert erindi í viðskipti? (Pistlahöfundur hefur þann djöful að draga að muna alla mögulega og ómögulega hluti.)
En stundum hlýtur maður að hafa áhyggjur af því að þessir viðskiptamenn finni kannski ekki jeppann sinn, þyrluna eða glæsihúsið. Minnisleysi getur tekið á sig alls konar myndir.