Eins og kemur fram hér á Eyjunni er nokkuð rætt um samning Reykjavíkurborgar um Vogabyggð, en Ólafur Ólafsson á aðild að honum sökum þess að hann er einn þeirra sem eiga lóðir þar. Reyndar eru fleiri uppbyggingarverkefni Reykjavík sem tengjast Ólafi, hann er orðinn umsvifamikill á þessum markaði í gegnum fyrirtækið Festir.
Þór Saari sem var í framboði fyrir Pírata segir:
Hér er um að ræða samning við dæmdan svikahrapp sem fékk fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir fjárglæfra og svik og væri Búnaðarbankafléttan ekki fyrnd yrði hann ugglaust dæmdur aftur í fangelsi. Einnig er mikilvægt að Píratar myndi sér afstöðu varðandi fyrningarákvæði laga, sem fyrst og fremst virðast sett til að vernda sérstaka tegund glæpona hverra mál tekur mörg ár að rannsaka,
Nú stígur inni í umræðuna Sara Óskarsson, sem situr á þingi fyrir Pírata. Sara skrifar:
Það væri gjörsamlega óforsvaranlegt fyrir borgina að halda samningunum við þennan mann. Ég hef persónulega zero-tolerance gagnvart því. Zero.
Sara lýsir því svo yfir að hún muni taka málið upp á Alþingi. Aðspurð að því svarar hún:
Ó já.
Öðrum áhrifamönnum innan Pírata líst ekki alveg á að fara í þessa herferð. Þannig skrifar þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson, en Þór lýsir því yfir að sér þyki þetta „aum svör“:
Það má skoða fyrningarákvæði laga á upplýstan hátt, en þó Ólafur var (og eflaust er enn) fjárglæfra maður er varasamt að rifta samningum við hann á persónugrundvelli, því jafnræði fyrir lögum er grundvallar borgararéttindi.
Mitt megin umboð er grunnstefna Pírata, sem snýst um verndun og eflingu borgararéttinda.
Jafnrétti fyrir lögum er þar lykilatriði. Er hægt er að hafna samningum við þennan skuggalega gæja á grundvelli megin reglu réttarverndar borgararéttinda Þór Saari?
Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, bendir á að allir flokkar í borginni hafi verið samþykkir samningunum, enda séu þeir í anda markmiða Reykjavíkurborgar um uppbyggingu. Annar sem tjáir sig um málið er Þórgnýr Thoroddsen, sem starfar í borgarstjórnarflokki Pírata. Þórgnýr skrifar að byggingaréttur Ólafs sé löngu tilkominn og erfitt að slíta samningum sem hann telur vera góða fyrir borgina:
Ég fer síðastur að verja ÓÓ en við verðum að gera okkur grein fyrir því að hann er einn eigandi í félagi meðal um hundrað félaga sem eiga byggingarrétt á Vogabyggðarsvæðinu. Þessi félög hafa gert samning um uppbyggingu sem skilar 15-20% leigu- og búseturéttaríbúðum og félagsbústaðir eiga kauprétt á 5% eignanna. Enn fremur er rukkað sérstaktinnviðagjald vegna dýrra innviðauppbygginga á svæðinu, sem augljóslega draga úr hagnaði aðilanna.
Að setja góðan samning við umdeildan mann í samhengi við það að fá banka að gjöf með prettum er ekki sanngjarnt. Ekki síst því þessi byggingaréttur er löngu tilkominn og það væri alvarlegt mál að slíta slíkum samningi á grundvelli þess að manni líki ekki við manninn. Hvers konar stjórnsýsla væri það nú?
En hvernig eignaðist Ólafur Ólafsson umrætt land á Gelgjutanga. Reynir Ingibjartsson, sem þekkir vel til sögu húsnæðis- og byggingamála í Reykjavík, skrifar á Facebook:
Smá sögustund. Það var Sverrir Hermannsson þá bankastjóri Landsbankans sem réði Ólaf til að stýra Samskipum hf. sem tóku við af Skipadeild SÍS þegar Sambandið var gert upp kringum 1991-2. Þá fylgdu með miklar eignir úr Holtagarðadæminu s.s. hafnaraðstaða og geymslur. Ólafur komst svo yfir Samskip smátt og smátt og eignaðist um leið stórar lóðir við Elliðavoginn. Seinna keypti Ólafur sig inn í Olíufélagið, forvera N1 og eignaðist þá Gelgjutangalóðina þar sem Olíufélagið hafði mikla starfsemi. Þegar Ólafur seldi í Olíufélaginu, hélt hann þessari lóð.