Ríkisendurskoðun er í nokkuð slæmum málum eftir uppljóstranir síðasta sólarhrings. Kastljós upplýsir að ekki standi steinn yfir steini í skýrslu Ríkisendurskoðunar um bótaþega – að hún hafi verið hráþýdd upp úr danskri skoðanakönnun. Samt varð þetta undirstaða ákafrar umræðu sem geisaði hér um bótasvik og gengu þar ýmsir stjórnmálamenn fram fyrir skjöldu. Manni sýnist að ábyrgð Ríkisendurskoðunar í þessu máli sé allþung.
Svo fara menn að skoða skýrslu frá 2006 um hlut þýska fjármálafyrirtækisins Hauck & Aufhäuser við kaup Búnaðarbankans. Ríkisendurskoðun var fengin til þess af þáverandi stjórnvöldum að skoða málið og gaf út heilbrigðisvottorð vegna kaupanna. Fann ekkert athugavert við þau. Þetta er alveg þvert á niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis sem var kynnt í dag. Þar koma skýrt í ljós blekkingar sem var beitt í þessum viðskiptum. Hugsanlega var þetta refsivert athæfi. Reyndar var um það talað á sínum tíma að skýrslan væri sérstaklega pöntuð – og að hún væri kattaþvottur.
Skýrslugerðin þá var til að bregðast við ásökunum frá Vilhjálmi Bjarnasyni viðskiptafræðingi – sem nú situr á Alþingi. Hann var óþreytandi við að halda þessu máli vakandi. Má kannski segja að hann standi uppi sem sigurvegari.