Ég hef sótt sundlaugar síðan ég var unglingur, fyrst Vesturbæjarlaugina en hin síðari ár sundlaugina á Seltjarnarnesi. Sundlaugarnar eru dásamlegir griðastaðir, eitt af því sem maður saknar mest þegar maður fer frá Íslandi, og þar eru allir jafnir – naktir í sturtu og í skýlunni þegar kemur út í laug eða pott.
Mér hefur aldrei komið til hugar að pissa í sundlaug. Ég hef ekki ímyndað mér að það væri hægt – inni í mér er mjög sterkur hemill sem segir að það megi ekki gera. Það má líka nota ýmis ráð til að forðast að pissa í laug, best er auðvitað að ljúka því af áður en maður fer ofan í.
Nú segir rannsókn vísindamanna í Kanada að það sé talsvert mikið af pissi í sundlaugum. Það þýðir bara eitt – sumir sundlaugagestir láta vaða. Reyndar sagði ólympíumethafinn Michael Phelps í viðtali fyrir nokkrum árum að „allir pissi í laugina“. Samt finnst manni að Phelps ætti að ganga á undan með góðu fordæmi, hann hefur unnið 21 gullpening á OL og er hetja. Nei, hann mígur í laugar og heldur því fram að klórinn lagi skaðann.
En vísindamennirnir í Kanada notuðu aðferðir sem lýst er í þessari grein í Guardian til að greina magn hlands í sundlaugum. Þeir skoðuðu sérstaklega tvær almenningslaugar og komust að því að gestir höfðu losað um 75 lítra af þvagi í stærri laugina og 30 lítra af hlandi í laug sem var um helmingi minni en hin fyrri. Einn rannsakendanna segir:
Niðurstöður okkar sýna að fólk pissar sannarlega í laugar og heita potta.
Reyndar má lesa í greininni að meira piss sé að finna í heitum pottum en í sundlaugunum sjálfum. Magnið þar var allt að þrefalt. Þar getur verið um að kenna hinum losandi áhrif sem heitt vatn hefur á þvagblöðruna.
Það verður samt að segjast eins og er, að þótt þetta sé afar hvimleiður ósiður, þá er magn hlands í sundlaugunum ekki mikið. Á þessu geta menn glöggvað sig á meðfylgjandi korti. Rauði bletturinn efst í horninu er 75 lítrar af pissi í laug sem rúmar 850 þúsund lítra af vatni.
Ég veit ekki til þess að gerðar hafi verið rannsóknir á pissi í íslenskum sundlaugum. En þær eru vel heitar, við notum okkar góða hitaveituvatn, og er líklegt að þess vegna sé jafnvel erfiðara fyrir fólk að halda í sér í íslenskum laugum en þeim erlendu. Það gæti semsagt hugsast að meira sé migið í laugar á Íslandi en í Kanada.