Eitt stærsta og versta flóttamannavandamál Afríku á sér nú stað í Suður-Súdan. En hversu ótrúlegt sem það kann að virðast í augum og eyrum sumra þá eru aðeins sárafáir af þessum flóttamönnum sem hafa tekið stefnuna til Evrópu. Ástæðan er hversu vel stjórnvöld í Úganda standa að móttöku flóttamannanna en þangað hafa nú tæplega 800.000 manns flúið.
Almenningur í Suður-Súdan býr við miklar hörmungar en hungursneyð ríkir í landinu á sama tíma og leiðtogar þess og vinir þeirra hafa efnast gríðarlega en þeir fjármunir eru að megninu til komnir úr ríkissjóði landsins.
Um 1,5 milljónir landsmanna hafa nú þegar flúið land og sárafáir þeirra hafa tekið stefnuna til Evrópu. Tæplega 800.000 þeirra hafa leitað skjóls í Úganda. SÞ telja að daglega flýi um 3.000 manns yfir til Úganda, til norðurhluta landsins.
Þrátt fyrir þennan mikla fjölda flóttamanna þá er þeim öllum hleypt inn í landið. Þeir eru skráðir í móttökustöðvum þar sem starfsfólk SÞ og alþjóðlegra hjálparsamtaka er til reiðu með vatn, mat og læknisaðstoð. Eftir nokkurra daga dvöl í móttökustöðvunum er fólkið sent áfram til svæða í nágrenninu.
Íbúarnir þar hoppa ekki hæð sína í loft upp af gleði yfir öllum flóttamönnunum en hugarfarið er samt sem áður á jákvæðari nótunum eða eins og höfðinginn yfir bænum Koro sagði í samtali við Danska ríkisútvarpið:
„Hvað getum við gert? Þetta eru bræður okkar og systur sem koma hingað, við getum ekki rekið þau í burtu.“
Á nokkrum mánuðum hefur íbúafjöldinn á svæðinu aukist gríðarlega. Í Úganda eru ein frjálslegustu flóttamannalög heims í gildi, tekið er við öllum, allir fá að búa þar og vinna.
Í samstarfi SÞ og alþjóðlegra hjálparstofnana felst að úganska ríkisstjórnin leggur til landrými og skipulagningu en alþjóðasamfélagið um restina, t.d. skóla, mat, vatn, heilsugæslu og aðrar nauðsynjar. Flóttamennirnir fara strax að taka til hendinni og byggja sér hús og þannig myndast samfélög um leið í stað þess að flóttamönnunum sé komið fyrir í flóttamannabúðum þar sem þeir gætu jafnvel setið fastir árum saman. Fólkið verður því fljótt sjálfbjarga því það fer að sá í ræktarlönd og litlar verslanir opna. Það fær þó matarpakka með mestu nauðsynjunum en stefnan er að fólkið skapi sér tilverugrundvöll í Úganda og það virðist ætla að ganga vel.