fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Ellert B. Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík: „Kerfið þarf að endurskoða“

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 18. mars 2017 13:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ellert B. Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og Björn Ingi Hrafnsson þáttastjórnandi Eyjunnar á ÍNN.

Í febrúar sl. var Ellert B. Schram fyrrverandi ritstjóri, Alþingismaður og núverandi kjörinn formaður Félags eldri borgara í Reykjavík,. Hann var í viðtali hjá Birni Inga Hrafnssyni á Eyjunni á ÍNN en þáttur vikunnar var helgaður kjaramálum eldri borgara.

Ellert telur alveg ljóst að skoða þurfi eftirlaunakerfi eldri borgara í landinu alveg upp á nýtt. Núverandi staðlar þar sem fólk sé sjálfkrafa dæmt gamalt um sjötugsaldur séu í tilvikum margra úrelt fyrirkomulag. Miklar breytingar til batnaðar hafi á tiltölulega skömmum tíma orðið á heilsufari eldra fólks.

Sjálfur hóf Ellert ekki afskipti af málefnum eldri borgara fyrr en nýverið.

Ég var kominn á áttræðisaldur þegar ég áttaði mig á því að ég ætti kannski eitthvað erindi í félag eins og Félag eldri borgara. Það var eiginlega fyrir algera tilviljun að það var hringt í mig og ég beðinn um að gefa kost á mér í stjórnina. Ég samþykkti það, það var nú einhver bylting í uppsiglingu, en hafði ekki tíma til að mæta á þennan aðalfund þar sem kosningin átti að fara fram vegna þess að ég var í golfi í útlöndum. Svo fékk ég hringingu um það að byltingin hefði ekki tekist en ég hefði verið eini byltingarmaðurinn sem var kosinn í stjórnina. Þannig hófust samskipti mín við hinn formlega félagsskap eldri borgara. Ég er búinn að vera í stjórninni hjá Félagi eldri boragara í Reykjavík síðastliðin tvö ár.

Ellert tók við formennskunni af Þórunni Sveinbjörnsdóttur. Hann segir að nú séu um ellefu þúsund manns skráð í Félag eldri borgara í Reykjavík.

Einhvern veginn tókst þeim samt að finna það út að ég ætti að vera formaður.

Þegar samtalið við Björn Inga beindist að atvinnuþáttöku eldri borgara benti Ellert á að heilsufar og langlífi væru þættir sem hefðu tekið miklum stakkaskiptum. Á átjándu öldinni hefði meðalaldur Íslendinga verið 42 ár. Núna væri hann kominn yfir áttrætt.

Eitt er elli og annað er aldur. Fólk sem er komið yfir 67 ára aldur er bara í mjög fínu formi og hefur fullkomna ástæðu til að halda áfram að vera inni á vinnumarkaðnum. Þannig að þessir staðlar sem hafa verið settir upp um að 67 ára ertu orðinn aldraður, sjötugur færðu einhver réttindi, þetta er bara úrelt. Auðvitað er það misjafnt, en sem betur fer, langsamlega stærsti hópurinn af því fólki sem eldist, það eldist vel. Býr við góða heilsu og fulla löngun og hvöt til þess að taka virkan þátt í þjóðfélaginu.

Ellert sagði að auðvitað yrði þó að gæta hagsmuna þeirra sem byggju við bágust kjör.

Umræðurnar hafa dálítið snúist um það og auðvitað þarf að taka á því. Það er hlutverk Félags eldri borgara að gæta hagsmuna þeirra sem verða út undan af einhverjum ástæðum. Það er hlutverk okkar í Félagi eldri borgara að sinna því.

Björn Ingi benti á það sem rætt hafði verið fyrr í þættinum við þau Þórunni Sveinbjörnsdóttur, Hrafn Magnússon og Wilhelm Wessman sem væri frítekjumarkið og tekjutenginar ellilífeyris.

Ellert B. Schram telur að margt þurfi að laga í kjaramálum eldri borgara en þá baráttu þurfi að byggja á samræðum við það fólk sem ráði ferðinni í þjóðfélaginu.

Það er alveg ljóst að það þarf að endurskoða þetta kerfi algerlega upp á nýtt. Ég hef enga patentlausn á því hvernig það á að gera. En mér finnst nauðsynlegt að eiga gott samstarf við þá sem ráða ferðinni. Við erum að kvarta, við erum að benda á, við viljum breyta og allt gott um það. Við erum að tala fyrir hönd stórs hluta þjóðarinnar, eldri borgara. En það er ekki nóg að við séum að væla eitthvað, við verðum að fá skilning og samstöðu með þeim sem taka svo endanlegar ákvarðanir. Ég vil fara þá leið í þessu starfi sem ég hef tekið að mér núna sem formaður eldri borgara í Reykjavík, að eiga við þá samtal. Ég er alveg viss um það að ef fólk setur sig inn í þessa stöðu, að þá hefur það tilfinningu og samkennd með því sem við erum að tala um.

Stærsta mál að fá breytt? Sumir vilja dimplómatískir og beita samtali, aðrir beita hörku. Er verið að vinna í þessu á bak við tjöldin af fullum krafti?

Ég veit ekki hvort það sé af fullum krafti, en yfirlýsingar sem ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hafa gefið, benda til þess að þeir séu og vilji skoða breytingar á þessu kerfi sem þeir sitja uppi með. Ég held að það sé alveg upp á líf og dauða í þessari umræðu, að menn geti talað saman. Að það sé ekki alltaf harka sem ráði ferðinni eða stríð milli hópa eða flokka eða milli ríkisstjórna og við séum einhverjir gammar úti í þjóðfélaginu sem séu alltaf að rífast um það að fá eitthvað meira út úr kerfinu. Í mínum huga snýst þetta um að gera ævina og lífið betra þegar fólk er komið á þennan aldur. Hjálpa fólkinu til þess að láta sér líða vel og reyna að eyða fátæktinni og fátæktargildrunum.

Nýkjörinn formaður Félags eldri borgara í Reykjavík sagði meðal annars í lokin að það þyrfti ekki að vera neikvætt að komast á eftri ár:

Á meðan maður hefur fulla heilsu og líður vel og hefur gott fólk í kringum sig, þá er yndislegt að eldast.

Hér má sjá viðtal Björns Inga Hrafnssonar við Ellert B. Scram: 

https://vimeo.com/208795287

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“