Ragnar Þór Ingólfsson er nýr formaður hins stóra og volduga verkalýðsfélags VR. Ragnar sigraði frambjóðanda „kerfisins“, sitjandi formann, Ólafíu Rafnsdóttur, með yfirburðum. Þarna er Ragnar kominn nærri stjórnun lífeyrissjóðanna – sem hann hefur gagnrýnt harðlega.
Ragnar kemur að utan – hann er utangarðsmaður í þessum félagsskap og hefur gagnrýnt verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina harðlega. Ragnar kom í Silfur Egils eftir hrun og ræddi lífeyrissjóðina – ég man að forsvarsmenn þeirra brugðust mjög illa við. Mér fannst á þeim tíma að þeir, með sín miklu völd, starfsmannafjöld, fé og afl til að auglýsa, þyrftu ekki að vera svona taugaveikaðir vegna orða þessa eina verslunarmanns sem vann við að selja reiðhjól. En Ragnar olli miklum skjálfta.
Það hafa reyndar verið ótrúlegar sviptingar í VR (sem eitt sinn hét Verslunarmannafélag Reykjavíkur en heitir víst Virðing, réttlæti núna) síðan á tíma hrunsins. Gunnar Páll Pálsson var settur af, einkum vegna tengsla sinna við Kaupþing. Þá tók við Kristinn Örn Jóhannesson sem sat í tvö ár en tapaði þá fyrir Stefáni Einari Stefánssyni í formannskjöri. Fráfarandi formaður, Ólafía Rafnsdóttir, sigraði Stefán Einar svo með yfirburðum og náði að gegna formennskunni í fjögur ár. En hún fellur nú fyrir Ragnari – sem má kalla uppreisnarmann.
Ragnar hefur sagt að taka þurfi til í lífeyrissjóðskerfinu. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig honum reiðir af í hinu nýja embætti.