Halldór Laxness hafði þann sið, einkum framan af rithöfundaferli sínum, að geta þess í bókarlok hvar bækur sínar voru skrifaðar.
Þannig stóð í Fuglinum í fjörunni, seinna bindi Sölku Völku: Leipzig-París-Grindavík, sumarið 1931.
Landnámsmaður Íslands, fyrsti hluti Sjálfstæðs fólks: Laugarvatni-Barcelona, sumarið 1933.
Ljós heimsins, fyrsta bindi Heimsljóss: Á ferðalagi til Suður-Ameríku, haustið 1936.
Eldur í Kaupinhafn, þriðja bindi Íslandsklukkunnar: Hveradölum, Hellisheiði,veturinn 1942-3.
Og svo framvegis. Það verður að segjast eins og er, þetta er dálítið töff.
Guðbergur Bergsson var oft dálítið á skjön við Halldór Laxness, gerði frekar í því, og í Tómasi Jónssyni metsölubók gerir hann gys að þessu. Hann birtir sögukorn innan í meginfrásögninni sem hljómar eins og það sé komið úr Heimsljósi. Þetta er merkt:
París-Ulm-San Remo-Róm-Korfú 1948-49.
Ég gerði lítið innslag um þetta sem birtist í síðustu Kilju og sjá má með því að smella hér.
Ég get þess að bækurnar eftir Laxness sem sjást í innslaginu eru frumútgáfur. Vefarinn mikli frá Kasmír (Taormina, sumarið 1925) er til dæmis þarna í heftum. Það voru hjónin Una Margrét Jónsdóttir og Hólmsteinn Eiður Hólmsteinsson sem léðu mér bækurnar og kann ég þeim góða þökk fyrir.
Ungur (úngur) Halldór Laxness við skriftir. Hér er innslagið úr Kiljunni.
Í framhaldi af vinnunni við þetta efni dreymdi mig svo draum. Þá var ég staddur á Gljúfrasteini ásamt Halldóri og Auði. Auður var ýmislegt að sýsla, en Halldór spjallaði við mig og las upp fyrir mig. Þetta var góður draumur, en ekki man ég hvað hann var að segja. Draumnum lauk þegar við þurftum að fara í boð niðri í bæ.