Ódámurinn Erdogan kallar lýðræðisríki í Evrópu nasista vegna þess að þau vilja ekki leyfa útsendurum hans að halda þar útifundi til að klappa upp stjórnarskrá sem er atlaga að lýðræði og réttarfari í Tyrklandi. Erdogan gengur sífellt lengra í frekju sinni, yfirgangi og yfirlýsingagleði. Ferðamenn forðast Tyrkland eins og heitan eldinn, tekjur af ferðamönnum hafa minnkað um hátt í 40 prósent. Þjóðverjar hafa verið einna fjölmennastir túrista í Tyrklandi – tæplega laðar Erdogan þá að með því að kalla þá nasista.
Erdogan hefur barið niður mótstöðu gegn sér með fangelsunum, ritskoðun og ógn. Tyrkneskir vinir mínir sem eitt sinn tjáðu sig um stjórnmál á samskiptamiðlum eru hættir því – þeir birta bara myndir af kisum. En Erdogan hefur ekkert að bjóða Tyrkjum nema rembing, úlfúð og tortryggni – rétt eins og Pútín í Rússlandi. Þeir tveir eru steyptir í sama mót. En það er erfitt að bregðast við þessu – evrópsku lýðræðisríkin eiga mikið undir friðsamlegri sambúð við Tyrkland.