Þetta er skemmtileg auglýsing frá Áfengisverslun ríkisins. Ártalið er óvíst, en líklega er þetta um miðja síðustu öld. Þarna er auglýst að Áfengisverslunin framleiði bæði hárvötn og ilmvötn – sem eykur vellíðan, jafnvel hjá ungu fólki. Umsvif Áfengisverslunarinnar hafa semsagt verið mikil á þessum árum.
Þarna er auglýst Kölnarvatn, Kínínvatn, Portúgalsvatn og Bayrhum – en það mun vera ilmvatn byggt á rommi (franska orðið eau þýðir einfaldlega vatn).
Af þessu varð Eau de Portugal nafntogaðast á Íslandi. Það þótti henta til drykkju og gekk þá undir heitinu Portúgali. Þessi vökvi var drukkinn af rónum, þeim sem lentu í Hafnarstræti, eins og það var kallað, eða hreinlega í ræsinu. Það var blandað í óáfenga drykki, en ég er ekki nógu vel að mér til að vita hvað hentaði best í því efni.
Í ungdæmi mínu man ég eftir rónum sem voru með Portúgala, en aldrei bragðaði ég þennan drykk sjálfur. Missti líklega ekki af miklu.
Portúgalinn kemur fyrir í Minning um mann, frægu lagi Gylfa Ægissonar, en það fjallar um Gölla Valdason, þekktan drykkjumann í Vestmannaeyjum. Þar eru þetta.
Þá Portúgal hann teygaði, það gerði ekkert til,
það tókst með honum yl í sig að fá.
Ég hef reyndar aldrei verið alveg viss með þessar línur. Er sungið „þá Portúgal hann teygaði“ eða „Eau Portúgal hann teygaði“?