Stuðningur Bandaríkjamanna við Donald Trump forseta landsins jókst í kjölfar stefnuræðu hans á Bandaríkjaþingi í nótt, sýna kannanir að ánægja landsmanna með forsetans jókst nokkuð eftir að hann sagðist munu fylgja harðri stefnu gagnvart ólöglegum innflytjendum í landinu á efnahagslegum forsendum. Hét Trump því í stefnuræðunni að endurvekja þjóðarstolt bandarísku þjóðarinnar og stuðla að efnahagslegum umbótum.
Ræða Trump var nokkuð lágstemmdari en oft áður og var hann yfirvegaður þrátt fyrir að fátt nýtt væri á dagskrá. Gagnrýndi hann hótanir í garð gyðinga í Bandaríkjunum og fordæmdi hann morð Bandaríkjamanns á indverskum innflytjanda í Kansas, en maðurinn hélt því fram að með morðinu væri hann að vernda land sitt gegn Írönum.
Sagði Trump að með innflytjendalögum væri hægt að hækka laun Bandaríkjamanna, hjálpa atvinnulausum, tryggja meira öryggi í landinu og spara gríðarlegar fjárhæðir. Trump sagðist munu setja hagsmuni Bandaríkjanna í forgang, það væri hlutverk Bandaríkjaforseta, ekki að vera í forsvari fyrir heiminn allan:
Mitt starf er ekki að vera í forsvari fyrir heiminn, mitt starf er að vera í forsvari fyrir Bandaríkin,
sagði Trump. Ítrekaði hann að áform forvera síns Barack Obama í heilbrigðismálum yrðu felld úr gildi, útgjöld til hernaðarmála yrðu aukin og að skattar, sérstaklega á millistéttina, yrðu lækkaðir umtalsvert.