fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Eyjan

Hinar þokkafullu Reykjavíkurmyndir Gunnars Rúnars sumarið 1953 – og smá um SÍBS-kubbana

Egill Helgason
Þriðjudaginn 7. febrúar 2017 19:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessar frábæru ljósmyndir í lit eru teknar í Reykjavík sumarið 1953. Höfundurinn er Gunnar Rúnar Ólafsson ljósmyndari. Gunnar starfaði sem ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður frá 1946, hann hafði lært fagið í Bandaríkjunum, í New York og Los Angeles, tók myndir fyrir Morgunblaðið, en fékkst mikið við auglýsinga- og iðnaðarljósmyndun.

Gunnar Rúnar tók líka myndir af mannlífi og umhverfi, eins og myndirnar að neðan bera vitni. Safn hans sem er mikð að vöxtum er varðveitt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en kvikmyndirnar í Kvikmyndasafni Íslands. Sjá má sýnishorn af myndum hans hér.

Myndirnar sem birtast hérna á síðunni eru sérlega þokkafullar, Gunnar mun hafa verið að gera tilraunir með litljósmyndun, þær sýna okkur liðinn tíma, það virkar eins og yfir bænum sé mikil ró – líklega eru þær teknar á sunnudegi eða einhverjum hátíðisdegi. Í myndum Gunnars er Reykjavík yfirleitt falleg, góð og skemmtileg borg.

 

 

Þessi mynd sýnir tröppurnar og túnið fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík. Þarna sést Bernhöftstorfan eins og hún var áður en hún fór í algjöra niðurníðslu. Svo vill til að glittir í húsið þar sem greinarhöfundur býr í Skólastrætinu. Það sést í húsmæni með glugga og rautt þak. Væri reyndar gaman að sjá betur á myndum hvernig þróun hússins hefur verið – það er reist 1856 og er eitt elsta hús í borginni. Húsið var byggt af Einari snikkara sem bjó þar sjálfur. Hann var áhugamaður um tónlist, smíðaði sér fiðlu, svo saga tónlistar í húsinu er löng. En á myndum er það gjarnan falið bak við Bernhöftstorfuhúsin.

 

 

Þarna er Kennararaskólinn gamli, rútubifreið sem ekur í átt út úr bænum, en á gangstéttinni meðfram Hringbrautinni er prúðbúið fólk. Fólkið sem situr á bekk í Einarsgarði virðist líka vera spariklætt. Blómskrúðið í garðinum er fallegt á að líta, garðurinn er nefndur eftir Einari Helgasyni garðyrkjufræðingi sem rak gróðrarstöð þarna milli 1899 og 1931. Mikið af eldri trjám í Reykjavík eiga upprunna sinn þar. Seinna varð þetta almenningsgarður í umsjá Reykjavíkurborgar.

 

 

Aftur er mikið blómskrúð á þessari mynd. Þarna stendur fallega hvítklædd stúlka innan um blómabeðin á Austurvelli. Það er gaman að sjá bifreiðarnar sem eru í bakgrunni, bílfróðir bera kannski kennsl á tegundirnar. Húsið sunnan við Hótel Borg var rifið árið 1978 og reist þar fjölbýlishús.

 

 

Lækjargatan, sumarið 1953. Bílaflotinn er glæsilegur, það er vinstri umferð. Himininn er dásamlega heiðskír. Þessi húsalengja hefur breyst mikið. Iðnaðarmannafélagshúsið stendur enn næst Tjörninni, en húsin þrjú sem koma næst eru öll horfin, þau brunnu ellegar voru rifin. Þá koma fjögur hús sem standa enn, næst okkur eru stóra timburhúsið Lækjargata 6 a og 6b.

Í húsinu sem síðar hýsti Hagkaup en var svo flutt upp í Árbæjarsafn var á þessum tíma hannyrða- og vefnaðarvöruverslun Ingibjargar Johnson, eins og sjá má á skilti. Við hliðina á, í stórhýsinu sem var byggt út frá Nýja bíói, var svo söluskrifstofa Loftleiða. Gráa rútan í götunni er sögð hafa tilheyrt Loftleiðum og verið notuð til að flytja farþega til og frá flugvelli. Það var um þetta leyti að Loftleiðir gáfust upp á að halda úti innanlandsflugi en einbeittu sér að millilandafluginu.

 

 

Loks er hér mynd úr sömu litmyndasyrpu Gunnars Rúnars sem tekin er bak við Stjórnarráðshúsið. Þarna sést strætó á Lækjartorgi. Austurstrætið er opið fyrir bílaumferð. Hin tröllslega viðbót hefur ekki enn verið sett ofan á Útvegsbankahúsið og eins eru ekki komi til skjalana hin módernísku hús sem einkenna nú götumyndina, Moggahúsið, Eymundsson og Austurstræti 17.

 

 

Gunnar Rúnar, þessi merkilegi ljósmyndari, lést fyrir aldur fram 1965. Hér má sjá frétt um andlát hans sem birtist í Morgunblaðinu.

 

 

Loks er hér mynd sem Bjarni Sigtryggsson setti inn á vefinn Gamlar ljósmyndir. Þarna mun vera unnið að fyrstu Lego-kubba auglýsingunni sem birtist á Íslandi. Þá hétu þeir reyndar SÍBS-kubbar, því SÍBS og Reykjalundi var tryggður réttur á framleiðslu þessara kubba á Íslandi. Ágóðinn rann semsagt í þágu góðgerðamála. Myndin er tekin af Gunnari Rúnari Ólafssyni, en drengurinn til hægri á myndinni er Ólafur sonur hans.

Það var Ólafur Gunnarsson sem gaf mér góðfúslegt leyfi til að birta myndirnar hér á síðunni.

 

 

Hér eru svo SÍBS-kubbarnir. Þeir hétu það fram til 1960, en SÍBS framleiddi Legokubba allt fram til 1977.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“