Sigurður Helgason stjórnarformaður Icelandair Group sækist ekki eftir endurkjöri á aðalfundi flugfélagsins 3. mars næstkomandi. Hann staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í dag, en Sigurður hefur verið stjórnarformaður frá árinu 2009. Þar áður var hann forstjóri Icelandair Group en hann hefur starfað þar í 43 ár.
Hann segir síðustu tvö ár hafa verið þau bestu í sögu félagsins og skilur hann sáttur. Hann hefur ekki áhyggjur af samkeppninni og segir Icelandair vel í stakk búið að takast á við hana. Félagið hefur pantað sextán nýjar flugvélar frá flugvélaframleiðandanum Boeing og samið hefur verið um kauprétt á átta vélum til viðbótar.
Tommi í Hamborgarabúllunni býður sig fram til stjórnarsetu
Sex bjóða sig fram í fimm manna stjórn Icelandair Group, í tilkynningu til Kauphallarinnar í morgun kemur fram að Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir, og Úlfar Steindórsson bjóða sig fram, en þau eiga öll sæti í stjórninni. Georg Lúðvíksson stofnandi og forstjóri Meniga, Ómar Benediktsson framkvæmdastjóri Farice og Tómas A. Tómasson, best þekktur sem Tommi í Hamborgarabúllunni, bjóða sig einnig fram.