Sænski þjóðernissinnaflokkurinn Svíþjóðardemókratar er nú sakaður um að rægja Svíþjóð á alþjóða vettvangi.
Ástæðan er sú að Jimmie Åkesson flokksformaður Svíþjóðardemókrata og Mattias Karlsson þingflokksformaður skrifuðu grein í bandaríska dagblaðið Wall Street Journal í vikunni.
Tilefnið var ummæli Donalds Trump um Svíþjóð í ræðu hans í Florida fyrir viku síðan. Þar sagði Bandaríkjaforseti um Svíþjóð:
Við verðum að halda landi okkar öruggu. Sjáið hvað er að gerast í Þýskalandi, sjáið hvað gerðist í Svíþjóð í gærkvöldi. Svíþjóð! Hver hefði trúað því? Svíþjóð! Þessi lönd tóku inn fullt af fólki og glíma nú við vanda sem enginn taldi mögulegan.
Eins og greint hefur verið frá hér á Eyjunni brutust síðan út óeirðir í Rinkeby-úthverfinu í Stokkhólmi sl. mánudagskvöld.
Leiðtogar Svíþjóðardemókratanna virðast hafa ætlað að slá pólitískar keilur í framhaldi af þessu og á miðvikudag birtist grein þeirra í Wall Street Journal. Hún hefur valdið uppnámi í Svíþjóð. Þar vísuðu þeir Åkesson og Karlsson meðal annars í ummæli Bandaríkjaforseta um Svíþjóð og vöktu athygli á óeirðunum í Rinkeby:
Hr. Trump ýkti ekki núverandi vandamál Svíþjóð. Ef eitthvað er þá dró hann úr þeim. Á árabilinu 2014-16 tók Svíþjóð á móti um 275.000 hælisleitendum, meiri fjölda á höfðatölu íbúa en nokkuð annað land í Evrópu. Áttatíu prósent þeirra sem komu vantaði vegabréf og önnur skilríki, en meirihlutinn kom frá löndum múslima. Íslam er nú næst stærstu trúarbrögð Svíþjóðar.
Þeir skrifuðu einnig að talið sé að 300 sænskir ríkisborgarar með innflytjendabakgrunn hafi haldið til Miðausturlanda að berjast fyrir hið svokallaða Íslamska ríki.
Margir þeirra eru nú að snúa aftur til Svíþjóðar þar sem þeim er tekið með opnum örmum af sósíalistaríkisstjórn okkar. Í desember 2010 upplifðum við fyrstu sjálfsmorðssprengjuárásina á sænskri foldu þegar íslamskur hryðjuverkamaður reyndi að sprengja hundruði borgara í miðborg Stokkhólms þar sem fólkið var í jólagjafainnkaupum. Þakka má fyrir að sprengjumaðurinn drap aðeins sjálfan sig.
Nú sakar Morgan Johansson dómsmálaráðherra Svíþjóðar (sósíaldemókrati) forvígismenn hinna þjóðernissinnuðu Svíþjóðardemókrata um að fara með rangt mál og rógburð um þeirra eigið land á alþjóðlegum vettvangi.
Þeir draga upp mynd af Svíþjóð sem sérlega ofbeldisfullu samfélagi þegar sannleikurinn er þveröfugur…Banvænt ofbeldi er fjórum sinnum algengara í Bandaríkjunum en í Svíþjóð og alþjóðlegar tölur sýna að það nær sex sinnum meira,
segir sænski dómsmálaráðherrann í viðtali við fréttastofu sænska sjónvarpsins (SVT).
Nú er augljóst að þetta er gengið svo langt að Svíþjóðardemókratarnir skaða Svíþjóð með vitund og vilja með því að dreifa lygum um landið á alþjóða vettvangi…Þetta getur skaðað hagsmuni okkar og hugsanlega haft efnahagslegar afleiðingar…Það er ekki hægt að sitja hjá og láta ósvarað þegar þeir stíga fram og útmála Svíþjóð með þeim hætti að við höfum ekki orðið vitni að slíku fyrr.
Wall Street Journal er eitt stærsta dagblað í heimi. Grein þeirra Åkesson og Karlsson hefur fengið mikla athygli og verið tekið fagnandi af stuðningsmönnum Donalds Trump. Meðal annars hefur hin hægri sinnaða Breitbart-fréttaveita greint frá henni. Breitbart-fréttaveitan er mjög hliðholl Trump og var í eina tíð stýrt af Steve Bannon sem nú er einn helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta.
Svíþjóðardemókratar hafa verið í mikilli sókn í Svíþjóð og mælast nú næst stærsti flokkurinn í skoðanankönnunum, næstir á eftir Sósíaldemókrötum. Næstu þingkosningar í Svíþjóð eru fyrirhugaðar í september á næsta ári.
Trump dró Svíþjóð fram á ný sem dæmi um land í kreppu
Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt ræðu síðdegis í gær á fundi íhaldsmanna í Bandaríkjunum (Conservative Political Action Conference – CPAC) í National Harbour í Maryland-fylki.
Þar hélt hann uppteknum hætti með tilvísunum um að Svíþjóð sé í alvarlegri kreppu vegna hælisleitenda og uppgangs öfga-íslams og vísaði í ræðu sína í Florida fyrir viku síðan:
Ég fékk miklar skammir fyrir Svíþjóð þannig að ég spurði daginn eftir hvort nokkur hefði sagt frá því hvað gerðist í Svíþjóð? Og það kom í ljós að ekki margir gerðu það. Sjáið hvað gerist í Svíþjóð. Ég elska Svíþjóð. Það er gott land með fjölda af góðu fólki. Fólkið þar skilur hvað er að gerast. Sjáið hvað gerist í Þýskalandi, Frakklandi. Sjáið hvað gerðist í Nice og París,
sagði Donald Trump og vísaði í framhaldi til orða vinar síns sem segði París í dag borg sem ekki væri farandi til lengur vegna hryðjuverkahættu.