Donald Trump Bandaríkjaforseti lenti ásamt fylgdarliði á forsetavélinni „Air Force One“ á Melbourne-flugvelli við Orlando í Flórdía-fylki í gærkvöldi. Þar með hófst það sem greinilega var hreinræktaður framboðsfundur í kosningabaráttu. Enda var viðburðurinn á vegum kosningavélar forsetans en heyrði ekki undir Hvíta húsið.
Þetta var einstök sjón að sjá frá manni sem aðeins hefur verið tæpan mánuð í embætti forseta Bandaríkjanna.
Það hefur ekki farið hátt í fjölmiðlum en þann 20. janúar, sama dag og Trump sór embættiseiðinn, þá létu kosningasmalar hans skrá Trump í forsetakosningabaráttu árið 2020. Enginn sitjandi forseti í Bandaríkjunum hefur byrjað næstu kosningabaráttu sína jafn snemma. Yfirleitt láta þeir nokkur misseri líða af fyrsta kjörtímabilinu áður en þeir skrá sig til leiks á ný.
Með því að gera þetta þá getur kosningavél Trump bæði nýtt sér áfram fé sem varð afgangs í nýafstaðinni baráttu og byrjað strax að taka við fjárframlögum til kosningabaráttunnar 2020. Þetta ætti að sýna skýrar en flest að þrátt fyrir bölbænir og hrakspár andstæðinga þá sér Donald Trump sjálfan sig hvergi á förum úr Hvíta húsinu. Hann sér sig kominn til að vera til 2024.
Valið á Flórída fyrir þennan viðburð var engin tilviljun – í því fylki á hann einna mestan stuðning.
Forsetahjónin gengu úr flugvélinni, á meðan spilaður var þjóðsöngurinn og þjóðernissinnuð tónlist þar sem Bandaríkin voru mærð og áhersla lögð á gildi á borð við föðurlandsást. Hann var klæddur í jakkaföt og hvíta skyrtu með rauða „Make America Great Again“-húfu í hendi, afslappur í fasi og án hálsbindis. Hún stórglæsileg í látlausum en stílhreinum rauðum ermalausum kjól.
Fundurinn hófst á því að Melania Trump forsetafrú fór með Faðirvorið og flutti síðan stutt ávarp í risastóru flugskýli sem var þéttsetið af aðdáendum og stuðningsfólki forsetans.
https://www.youtube.com/watch?v=dxIBnfgwj90
Síðan steig forsetinn í ræðustól og hélt ræðu þar sem hann talaði um hvað hann teldi að hefði áunnist fyrsta mánuðinn í embætti.
En fyrst fengu fjandvinir hans á fjölmiðlunum nokkrar munnlegar eyrnafíkjur. „Dishonest lying media.“
Ég vil tala við ykkur án síunnar frá falsmiðlunum. Óheiðarlegu fjölmiðlunum sem hafa birt hverja lygafréttina á fætur annarri, segjast hafa heimildir þegar þeir hafa þær ekki…Þeir eru stór hluti af vandamálinu, þeir eru hluti af rotnu kerfi.
Trump sagði svo að fyrri forsetar hefðu líka þurft að glíma við falsmiðla á þeirra tímum og nefndi Thomas Jefferson, Andrew Jackson og Abraham Lincoln meðal annars í því sambandi.
Þegar fjölmiðlarnir ljúga að fólki þá mun ég aldrei nokkurn tímann láta þá komast upp með það…Við ætlum ekki að láta falsmiðlana segja okkur hvað við eigum að gera, hvernig við eigum að haga lífi okkar, eða hverju við eigum að trúa. Við erum frjáls og óháð þjóð og við munum ráða okkar vali sjálf.
Trump beindi orðum síðan að störfum sínum sem forseti.
Þið sjáið hvað okkur hefur áunnist á stuttum tíma. Allt gengur eins og smurt í Hvíta húsinu. Og trúið mér, og við erfðum eitt alls herjar klúður, það get ég sagt ykkur. En ég veit að þið viljið trygg hverfi, þar sem strætin tilheyra fjölskyldum og samfélögum, – ekki klíkum og eiturlyfjasölum sem nú er verið, einmitt meðan ég tala, að fleygja út úr landinu og þeim verður ekki hleypt inn aftur. Við munum hafa sterk landamæri á ný…Fleygið þeim til fjandans út, farið með þá þangað þaðan sem þeir komu.
Tump sagðist ætla að standa við loforð um nýtt og ódýrara heilbrigðiskerfi og ódýra orku. Staðið yrði við fyrirætlanir um olíu-, gas- og kolavinnslu.
Þið fáið mjög, mjög hrein kol og kolanámumennirnir halda aftur til starfa.
Störfum væri strax farið að fjölga, þúsundum saman. Fyrirtæki væru að fjárfesta sem aldrei fyrr í Bandaríkjunum, markaðir væru í vexti.
Skyndilega virtist Trump koma auga á alþýðumann í fólksmergðinni fyrir framan ræðupúltið. Tækifæri! „Trump, maður fólksins.“Forsetinn tók hliðarspor í ræðu sinni, sagðist kannast við andlitið úr sjónvarpinu, þessi maður hefði verið í viðtölum og talað fallega um sig. Hann væri stuðningsmaður. Síðan gerði forsetinn það sem sjálfsagt fékk lífverði og leyniþjónustumenn til að fá örari hjartslátt, ef ekki tímabundið taugaáfall. Hann kallaði manninn upp á svið, faðmaði hann og leyfði honum að segja nokkur orð í ræðustólnum. Maðurinn gerði það og vitnaði eins og á frelsissamkomu. Þannig leit það út á sjónvarsskjá áhorfanda og þeir voru eflaust margir um heim allan:
Stjarna er fædd, stjarna er fædd…Ég myndi ekki segja að Leyniþjónustan [Secret Service] hafi verið ánægð með þetta en við þekkjum okkar fólk, þekkjum okkar fólk,
sagði forsetinn þegar hann hafði kvatt manninn.
Flugskýlið veinaði af hrifningu.
Síðan vék forsetinn að öryggismálum borgaranna. Hann hét því að efla öryggi á götum borga, flæma eiturlyfjabaróna á brott og:
…halda róttækum íslamistum til vítis út úr okkar landi.
Og enn veinaði flugskýlið.
Þá kom röðin að úrskurðum dómara gegn banni forsetans við komu fólks frá ákveðnum löndum múslíma og nú baulaði flugskýlið. Forsetinn með dómsúrskurðinn í hendi:
It’s so sad.
Forsetinn hélt áfram að tala um öryggismál og beindi nú orðum að Evrópu.
Við verðum að halda landi okkar öruggu. Sjáið hvað er að gerast í Þýskalandi, sjáið hvað gerðist í Svíþjóð í gærkvöldi. Svíþjóð! Hver hefði trúað því? Svíþjóð! Þessi lönd tóku inn fullt af fólki og glíma nú við vanda sem enginn taldi mögulegan. Lítið á hvað er að gerast í Brussel. Sjáið hvað er að gerast um heim allan. Sjáið Nice, París. Við höfum hleyptu þúsundum, þúsundum fólks inn í land okkar og það var engin leið að skoða þetta fólk, ekkert skjalfest, ekki nokkur hlutur. Svo við ætlum að halda landi okkar öruggu.
Forsetinn bætti við að „öll hefðum við hjartagæsku.“
Ég vil koma upp öruggum svæðum í Sýrlandi og á fleiri stöðum þar sem fólkið getur verið og lifað í öryggi þar til borgir þeirra og heimalönd sem eru í rúst eins og Obama og hin skildu við þau handa mér. Vinir, við sitjum uppi með glundroða eftir þetta lið sem þið mynduð ekki trúa. En við ætlum að koma upp svona öruggum svæðum og við ætlum að láta ríkin við Persaflóa borga fyrir þau því þau eiga ekkert nema peninga. Við ætlum að gera það þannig.
Trump sagðist ætla að byggja upp bandaríska herinn.
Við munum tryggja frið með styrk. Herinn okkar er illa úreltur. Við erum með flugvélar sem feður flugu í og nú eru synir þeirra teknir við vélunum. Þær eru svo gamlar.
Forsetinn lét ekki ræðuna líða án þess að lofa því að hreinsa til í stjórnsýslunni í Washington DC og ganga frá „möppudýrum“og eyða lobbýisma og hagsmunapoti. Það kallar hann að „ræsa fenið fram“ [Drain the swamp]:
Drain the Swamp! Drain the Swamp!
hrópaði flugskýlið taktfast.
Meðal stuðningsmanna Trump þá virðast möppudýrin og lobbýistar hagsmunasamtaka jafnvel enn meira hötuð en íslamistarnir.
Undir lok ræðu sinnar gaf forsetinn allt í botn áður en hann lauk máli sínu og talaði nú um þjóðræknisbylgjuna sem hann segir nú fara um heimsbyggðina, gildi landamæra, hlutverk bandarísku þjóðarinnar og bölvun alþjóðavæðingarinnar:
Þið eruð öll hluti af þessari stórkostlegu hreyfingu. Þessari hreyfingu sem svo mikið er talað um, sem skrifað hefur verið um á forsíðu hvers einasta tímarits um heim allan. Þetta er hreyfing sem fer um sem sveipur yfir land okkar, í hreinskilni sagt sem sveipur um gervallan hnöttinn. Sjáið Brexit. Það er auðvitað miklu minna dæmi en samt nokkuð sem vert er að skoða. Fólk vill öðlast vald að nýju yfir sínum landamærum. Og það vill öðlast stjórn að nýju yfir sínum lífum og lífum fjölskyldna sinna. Þjóðríkið er besta form mannlegrar hamingju, og bandaríska þjóðin er stærsta tákn frelsis og réttlætis á yfirborði Jarðar Guðs. Og nú höfum við andargift sem aldrei fyrr, nú höfum við okkar heilögu skyldu, og við eigum engra annara kosta völ og við viljum þennan kost að verja land okkar, vernda gildi þess og þjóna merkum borgurum þess.
Forsetinn bætti svo við:
Afnám landamæra þjóðríkja eykur ekki öryggi þjóða né eflir velmegun þeirra. Það grefur undan lýðræðinu og skiptir burt auðlegðinni. Við afsölum okkur henni til svokallaðrar hnattvæðingarelítu sem hefur gert sjálfri sér mjög gott en skilið vinnandi fjölskyldur eftir með rýrnandi tekjur. Í raun, ég meina þær eru að rýrna. Fyrir 18 árum síðan þénuðu mörg ykkar hér inni meira í einu starfi en þið þénið nú í tveimur eða þremur vinnum. Í stað friðar sjáum við stríð sem aldrei enda, átök sem virðist aldrei linna. Við berjumst ekki til sigurs, við berjumst í stríðum sem eru háð í pólitískum rétttrúnaði. Við sigrum ekki lengur, ekki í viðskiptum, ekki í neinu samhengi, við sigrum ekki lengur, við ætlum að byrja að vinna sigra á ný. Trúið mér.
Hér er ræða forsetans í heild:
https://www.youtube.com/watch?v=TIo3lBkoceU&t=762s