Fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins lauk nú síðdegis í Brussel. Samskiptin við Rússland, baráttan gegn hryðjuverkum og staða mála í Norður Kóreu voru meðal helstu umræðuefna á fundinum. Þá var fjallað um samvinnu Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og stuðning við ríki á suðurjaðri bandalagsins og stækkunarstefnu þess, auk þess sem fundað var með utanríkisráðherra Georgíu um samstarfs- og umbótaáætlanir.
„Bandalagið heldur áfram að treysta varnir í Evrópu en leggur jafnframt áherslu á að halda samskiptaleiðum opnum og minnka spennu. Þá er einnig lögð áhersla á umbætur í öryggismálum í grannríkjum Atlantshafsbandalagsins til gera þeim betur kleift að tryggja eigið öryggi og þar með öryggi ríkja Atlantshafsbandalagsins,”
sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem sótti fundinn.
Ennfremur var fundað með utanríkisráðherrum Finnlands og Svíþjóðar, ásamt utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. „Það er sérstakt ánægjuefni hve samstarfið við okkar norrænu vinaþjóðir utan Atlantshafsbandalagsins er orðið náið, enda deila þau sömu gildum og leggja sitt leggja sitt að mörkum til sameiginlegs öryggis,“ sagði Guðlaugur Þór sem jafnframt gerði mikilvægi kvenna til að stuðla að friði og öryggi að umtalsefni á fundinum.
Guðlaugur Þór átti einnig fund með Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, í tengslum við utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins. Ráðherrarnir ræddu um tvíhliða samskipti landanna, áherslur nýrra ríkisstjórna í utanríkismálum, fríverslunarmál, þróun öryggismála í Evrópu og Norður-Atlantshafi og samstarf innan Atlantshafsbandalagsins.
„Ég er sannfærður um að samskipti Íslands og Noregs munu halda áfram að eflast í tíð þessara ríkisstjórna, enda deilum við sömu sýn þegar það kemur að öryggismálum í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi, sem og sjálfbærri og friðsælli þróun á norðurslóðum,“ sagði Guðlaugur Þór.