fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Á að banna flugeldana?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 27. desember 2017 20:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavík er gjarnan nefnd á alþjóðavettvangi sem einn af skemmtilegustu stöðum til að dvelja á yfir áramót. Ástæðan er náttúrlega hin villta og skipulagslausa flugeldasýning sem fer fram á götum og í görðum í kringum miðnættið á gamlársdag og hið ofsafengna skemmtanalíf nýársnæturinnar.

Ferðamannastraumurinn hingað á áramótum er líka furðulega mikill – miðað við hvað er kalt í veðri og dimmt mestallan daginn. Um langt árabil var aldrei neinn á ferli í miðborginni á gamlárskvöld eða nýársnótt. Það hefur gerbreyst. Nú er manngrúinn í Bankastræti, á Laugavegi og upp á Skólavörðuholt svo mikill að minnir helst á Þorláksmessu eða Menningarnótt – nema þetta eru hérumbil allt útlendingar.

Á hinum hefðbundnu gamlárskvöldsbrennum hittir maður sjaldan vini og kunningja lengur –umhverfis þær er fullt af túristum sem eru keyrðir þangað á hópferðabílum til að upplifa stemminguna. Þeir hópast svo í kringum Hallgrímskirkju þegar dregur nær miðnætti – þar er fólk að sprengja í mannhafinu, það er kraftaverki líkast að ekki skuli hafa orðið stórslys á fólki á Skólavörðuholti á gamlárskvöld.

Áramótin í Reykjavík eru ofsafengin. Sumir skjóta upp flugeldum fyrir mörghundruð þúsund krónur – ein skotterta getur kostað tugi þúsunda. Tilgangsleysi þessa er náttúrlega algjört, en auðvitað má hafa af því skammvinna skemmtun. Menn eiga að taka hressilega á því á áramótum, skemmta sér, setja upp hatta og drekka vín. Ég hef verið  á mörgum stöðum erlendis um áramót en aldrei upplifað neitt þessu líkt. Víða tekur maður varla eftir því að nýtt ár sé að byrja.

Útvarpsmaðurinn og stjörnuáhugamaðurinn Sævar Helgi Bragason leggur til að bannað verði að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld – nema þá með skipulögðum hætti af þar til bærum yfirvöldum. Aðalástæðan sem hann nefnir er mikil mengun sem stafar af skothríðinni. Og kannski er þetta bara tímaspursmál – flugeldaskytteríið verður bannað fyrr eða síðar. Sjálfur man ég eftir því á mínum yngri árum að kviknaði í húsum vegna flugelda á gamlárskvöld – sumt af því voru timburhús sem borgarstjórnin var fegin að losna við. Þá datt engum í hug að stöðva þetta.

Ef slíkt bann yrði að veruleika yrði Reykjavík sjálfsagt ekki jafn vinsæll staður á áramótum. Það yrði þá bara að hafa það. Og björgunarsveitirnar myndu missa eina helstu tekjulind sína. En það er að vissu leyti hallærislegt að jafn mikilvæg stofnun í íslensku samfélagi og björgunarsveitirnar – við höfum jú engan her – þurfi að reiða sig á sölu flugelda og merkja. Maður trúir að minnsta kosti ekki öðru en að þeim yrði bætt upp tekjutapið.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?