Hér er ljósmynd frá Reykjavík, tekin um 1870. Mér er málið dálítið skylt, því á myndinni má sjá húsið þar sem ég bý, Skólastræti 5. Ég held að það sé elsta hús sem er notað til íbúðar í Reykjavík. Hér er átt við hið reisulega hús sem er fremst á myndinni, en framan við það er skúrræksni.
Húsið var byggt 1856 af Einari Jónssyni snikkara sem byggði fleiri hús í Reykjavík. 1879 var svo bætt ofan á það einni hæð og þannig er það enn. Eins og eðlilegt er með svona hús þarfnast það viðhalds og viðgerða. Það er máski óheppilegt í því sambandi að ég er ekki sérlega handlaginn. En ég kann afar vel við að búa í þessu húsi. Við fjölskyldan sofum bak við gluggana sem þarna sjást – maður hugleiðir stundum allt fólkið sem hefur verið í húsinu á undan manni. Hér var víst mikið músíserað á 19. öldinni – og svo heyrði ég einhvern tíma að í húsinu hefði verið fyrsta saumavél í Reykjavík.
Einu sinni skilst mér að hafi búið fullt af fólki í húsinu, nú er það miklu færra. Það er þróunin, fólk vill meira pláss. Húsakynnin hér þykja varla mjög stór á íslenskan nútímamælikvarða.
Byggingarstíllinn er norrænn og gamall. Hús af þessu tagi má finna í Noregi og Danmörku. Grunnurinn undir húsinu er hlaðinn og veggirnir þar ógurlega þykkir, en lofthæðin er ekki mikil. Þetta er mjög lifandi hús, getur orðið kalt á vetrum en hlýtt og bjart á sumrin. Þegar leið á 19. öldina ruddi annað byggingarlag sér rúms.
Vinur minn frá því í bernsku, Illugi Jökulsson, býr svo í húsinu fyrir ofan – það sést líka á myndinni tel ég vera. Þar bjó Erlendur snikkari og síðar sonur hans Einar Erlendsson sem var húsameistari og hafði teiknistofu í húsinu.
Við sjáum þarna grjótgarða. Enn er nokkuð eftir af þeim á lóðinni hjá mér. Ég veit ekki hvað þeir eru gamlir – en þeir eru örugglega mun eldri en garðurinn sem yfirvöld stóðu í að friða við höfnina. Myndin er tekin upp þar sem nú er Amtmannsstígurinn. Ég hygg að flest húsin á myndinni séu horfin, enda virka þau sum býsna hrörleg. Sjónarhornið er eins og frá norðausturhorni Menntaskólans – hann er ekki nema tíu árum eldri en húsið mitt. Myllan sem sést á myndinni var við Bankastræti.
Skólastræti myndi ég segja að tilheyri Kvosinni, sé efst í henni. Fyrir ofan hefjast Þingholtin. Þau eru nefnd eftir tómthúsbýlinu Þingholti en umhverfis það reis síðar þyrping bæja sem farið var að nefna Þingholtin. Þingholtabæina má sjá þarna efst á myndinni. Þar sem Skólastræti 5b stendur var á seinni hluta 18. aldar lítið þinghús þar sem voru haldin dómþing og hreppsfundir, en ekki er til nein mynd af því. En Þingholtin eru nefnd eftir þessu húsi.